Innlent

Minningin um eldgosið endist alla ævi

Hópur erlendra sjálfboðaliða tók til hendinni við bæinn Moldnúp undir Eyjafjöllum í vikunni, enda mikið magn af ösku sem þurfti að moka burtu af bæjarhlaðinu.Mynd/Meir Kfir
Hópur erlendra sjálfboðaliða tók til hendinni við bæinn Moldnúp undir Eyjafjöllum í vikunni, enda mikið magn af ösku sem þurfti að moka burtu af bæjarhlaðinu.Mynd/Meir Kfir

Hópur erlendra sjálfboðaliða á vegum sjálfboðaliðasamtakanna SEEDS hjálpaði til við að hreinsa ösku af túnum undir Eyjafjöllum. Sjálfboðaliðarnir segja það góða tilfinningu að geta hjálpað fólki.

„Það kom mér á óvart hvað var mikið af ösku, og hversu þétt hún var eftir rigningar. Eftir að verkinu var lokið gengum við upp á hól nærri bænum. Við sáum hvernig grasið var að rembast við að komast upp úr öskunni, og það minnti mig á fugla sem festast í olíuflekk og eru við það að kafna.“

Svona lýsir Matic Kraševec, sjálfboðaliði frá Slóveníu, upplifun sinni af því að moka ösku af túnum á bænum Moldnúpi undir Eyjafjöllum.

Hópur átta sjálfboðaliða frá sjö löndum tók þátt í hreinsunarstarfinu, og er von á fleiri erlendum sjálfboðaliðum til að hreinsa til eftir öskufallið.

Fólkið, sem flest er á aldrinum 20 til 30 ára, kom sérstaklega hingað til lands til að stunda sjálfboðaliðastörf, en átti ekki von á því að hluti af störfunum yrði að hreinsa til eftir eldgos.

„Ég heimsótti svæðið þar sem öskufallið var hvað mest áður en gosið í Eyjafjallajökli byrjaði, svo það var mikið sjokk að sjá hvernig askan hefur lagst yfir þetta fallega landslag. Það hefur allt breyst,“ segir Anais Kerroc‘h, sjálfboðaliði frá Frakklandi.

„Það tóku allir mjög vel á móti okkur fyrir austan og skýrðu fyrir okkur hvað þurfti að gera og hvers vegna. Það var þykkt lag af ösku á túnunum við bóndabæinn, og við þurftum að moka henni upp og keyra burtu á hjólbörum.“

Bæði Anais og Matic segjast meira en tilbúin til að fara aftur austur fyrir fjall til að hjálpa til við að hreinsa upp öskuna, enda ætla þau að dvelja áfram hér á landi fram á sumar. „Það veltur á því hvort íbúarnir hafa verkefni fyrir okkur, en ég held að við værum alveg tilbúin til að gera miklu meira,“ segir Matic.

„Ég ætlaði upphaflega að vinna við verkefni í Þórsmörk, en af augljósum ástæðum gekk það ekki eftir. Þegar ég heyrði af möguleikanum að hjálpa til við að hreinsa til eftir eldgosið stökk ég á það,“ segir Anais.

„Það er gott að geta hjálpað fólki, askan hefur lagst yfir stór svæði og það er mikilvægt verk að koma henni í burtu. Það er góð tilfinning að hjálpa þeim sem virkilega þurfa á aðstoð að halda,“ segir hún.

„Fyrir mig er þetta eitthvað sem ég varð að gera, vinna við hliðina á eldfjalli sem er að gjósa, þetta er minning sem verður með mér alla ævi. Ég sótti um styrkinn til að koma hingað fyrir hálfu ári, og svo gerist þetta einmitt þegar ég er hérna. Ég hefði ekki getað verið heppnari,“ segir Matic.

Þau viðurkenna bæði að vinir og fjölskyldan heima hafi smá áhyggjur af þeim á Íslandi þegar eldfjöllin gjósa hvert á fætur öðru. Matic segir sjálfboðaliðana þó einnig geta hjálpað við að leiðrétta þann leiða misskilning að hér sé allt í kalda kolum, með því að veita fjölmiðlum í heimalöndum sínum viðtöl. Sjálfur hafi hann veitt slóvenskum fjölmiðli viðtal, og einhverjir hafi talað við danska og þýska sjónvarpsmenn.brjann@frettabladid.is

Hreinsað Anais Kerroc‘h frá Frakklandi segir öskuna sums staðar hafa verið svo fína og þétta að hún hafi getað hnoðað öskubolta.Mynd/Meir Kfir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×