Innlent

Þöglir dómarar - aðeins tveir svara

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Aðeins tveir dómarar við Hæstarétt Íslands eru tilbúnir að svara fyrirspurn fréttastofu um hvort þeir séu með gengistryggt lán. Þetta eru Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson, en hvorugur þeirra er með slíkt lán.

Hinn 6. ágúst síðastliðinn sendi fréttastofa Stöðvar 2 öllum dómurum við Hæstarétt Íslands fyrirspurn og vísaði sérstaklega til dóms Hæstaréttar frá 16. júní síðastliðnum þegar gengistryggð lán voru dæmd ólögmæt í Hæstarétti. Dómurinn hafði gríðarlega mikil áhrif á samfélagið í heild sinni enda öll gengistryggð lán dæmd ólögleg í einu og enn er víða ágreiningur um hvaða samningar falli undir dóminn og hvernig eigi að gera þá upp.

Fyrirspurnin var svohljóðandi:

Vísað er til þess háttar samnings sem dæmt var um í máli nr. 153/2010. Í samningnum var ákvæði um að hann væri gengistryggður og að allar fjárhæðir væru bundnar erlendum/innlendum myntum í ákveðnum hlutföllum og tækju mið af þeim á hverjum tíma.

Eru einhverjir dómarar með gengistryggð lán, eins eða sambærileg þeim sem dæmt var um í framangreindu máli?

Fréttastofa fékk staðfestingu á því að fyrirspurnin hefði verið send á dómarana sem um ræðir, en þeir eru alls níu talsins.

Nú eru rúmir tveir mánuðir liðnir frá því fyrirspurnin var send, en aðeins tveir dómarar hafa svarað. Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson, þeir svöruðu báðir skriflega, en hvorugur þeirra sagðist vera með slíkt lán.

Þeir sem ekki svöruðu voru Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinssonm, en Viðar Már Matthíasson hafði ekki verið skipaður dómari þegar fyrirspurnin var send auk þess sem hann hafði ekki tekið sæti í Hæstarétti hinn 16. júní á þessu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×