Innlent

Ísland í fjórða sæti yfir gæði nettenginga

Suður-Kórea heldur fyrsta sæti í samanburði á gæðum og útbreiðslu nettenginga í löndum heims. Hér má sjá grunnskólabörn í sýningarsal suður-kóreska fyrirtækisins Samsung. Nordicphotos/AFP
Suður-Kórea heldur fyrsta sæti í samanburði á gæðum og útbreiðslu nettenginga í löndum heims. Hér má sjá grunnskólabörn í sýningarsal suður-kóreska fyrirtækisins Samsung. Nordicphotos/AFP
Ísland er meðal þeirra fimm landa heims þar sem nærri 100 prósent heimila hafa háhraðatengingu við internetið. Hin löndin eru Hong Kong, Suður-Kórea, Lúxemborg og Malta.

Þetta er meðal þess sem lesa má út úr nýrri könnun Saïd-viðskiptaháskólans við Oxford-háskóla í Bretlandi á þróun í gæðum nettenginga í heiminum. Könnunin er árviss og hefur verið gerð frá því árið 2008.

Metin er útbreiðsla nettenginga, aðgengi að þeim, hraði á niðurhleðslu og upphali, auk fleiri þátta og löndum gefin einkunn út frá samspili þeirra.

Ef tekið er meðaltal allra landanna sem könnunin náði til, en hún er gerð í 72 þjóðríkjum og 239 borgum, þá kemur í ljós að 49 prósent heimila hefur aðgang að háhraðanettenginu. Í fyrra var sú tala 47 prósent og 40 prósent árið 2008. Þá hafa orðið framfarir hvað gæði tenginga varðar, en það er metið svo að þau hafi aukist um nærri fjórðung, 24 prósent, á milli ára og um 48 prósent frá 2008.

Meðalhraði niðurhals í heiminum var þannig 5.920 Kbps (kílóbit á sekúndu) í ár, miðað við 4.882 Kbps í fyrra og 3.271 Kbps árið 2008. Sama þróun hefur svo verið hvað upphleðsluhraða varðar, en hann hefur farið úr 794 Kbps 2008 í 1.345 Kbps 2009 og í 1.777 Kbps á þessu ári.

Biðtími á netinu (e. latency, tíminn sem það tekur að hefja gagnasendingu frá því beiðni um það er send) hefur hins vegar aukist lítillega, í 142 millisekúndur úr 140 millísekúndum í fyrra. Staðan er hins vegar um fjórðungi betri en árið 2008, þegar biðtíminn var 189 millísekúndur. Millisekúnda er einn þúsundasti úr sekúndu.

Til samanburðar má benda á að í Suður-Kóreu er meðalhraði niðurhals 33,5 megabit á sekúndu (Mbps), upphalið 17,3 Mbps og biðtími 47 millísekúndur.

Ísland er meðal þeirra fjórtán landa sem sögð eru reiðubúin til að taka við „tækni morgundagsins", en þar er vísað til hluta á borð við háskerpusjónvarp á netinu og hágæða myndsamskiptatækni. Allra helstu kosta sem netið og nútímasamskipti hafa upp á að bjóða njóta hins vegar 48 lönd, samkvæmt könnuninni.

Rúmur helmingur landanna hefur svo brúað „stafrænu gjána", en það lýsir sér í því að minnkandi munur er á gæðum nettenginga í stærstu borgum landa og dreifðari byggðum þeirra. Mestur er munur á tengingum í borgum og sveitum í Lettlandi, en minnstur í Japan, þar sem tengingar eru jafnvel heldur betri í sveitum en borgum.olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×