Innlent

Jón Steinsson: Fyrningafrumvarp mun ekki gagnast mörgum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Jón Steinsson.
Jón Steinsson.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um fyrningu skulda við gjaldþrot á tveimur árum mun ekki gagnast mörgum að mati Jóns Steinssonar, lektors í hagfræði. Alltof auðvelt sé fyrir lánadrottna að endurnýja kröfur.

Þetta kemur fram í grein eftir Jón sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Jón fagnar frumvarpinu og segir það vera skref í rétta átt. Hann tekur hins vegar undir gagnrýni þingmanna Hreyfingarinnar en þeir telja að frumvarpið gangi ekki nægilega langt.

Í frumvarpsdrögum sem nú liggja fyrir er gert ráð fyrir að fyrningu megi rifta með dómsúrskurði ef lánadrottinn sýnir fram á að hann hafi "sérstaka hagsmuni" af því að slíta aftur fyrningu. Til dæmis ef telja má að fullnusta geti fengist í kröfuna á nýjum fyrningartíma.

Jón telur að þessi ákvæði séu of rúm því afar auðvelt fyrir lándadrottna að endurnýjar kröfur. Breytingarnar munu því ekki skila tilætluðum árangir og gagnast fáum að mati Jóns.

Jón segir að það væri skynsamlegra fyrir ríkisstjórnina að stíga skrefið til fulls og taka það skýrt fram í lögunum að einstaklingur sem gangi í gegnum gjaldþrot losni við nægilega mikið af skuldum til þess að hann geti byrjað upp á nýtt.

Jón bendir á að fyrir 110 árum hafi Bandaríkin sett lög um fyrningu krafna við gjaldþrot einstklinga og þau lög hafi fyrir löngu sannað gildi sitt.

Hann segir einkennilegt að vinstristjórn á Íslandi, árið 2010, veigri sér við að taka skref til þess að bæta stöðu þeirra sem verst eru setti í þjóðfélaginu, sem meira segja hægrisinnuðustu ríkisstjórnir Bandaríkjanna síðustu hundrað árin hafa tekið sem sjálfsögðum hlut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×