Innlent

Saksóknari ætti að sjá um skattrannsóknir

Fundarstjórinn Svala Ólafsdóttir sagði að næstu misseri yrðu prófsteinn á það hvort Íslendingum tækist að koma lögum yfir þá stóru og voldugu en ekki aðeins smælingjana.Fréttablaðið/gva
Fundarstjórinn Svala Ólafsdóttir sagði að næstu misseri yrðu prófsteinn á það hvort Íslendingum tækist að koma lögum yfir þá stóru og voldugu en ekki aðeins smælingjana.Fréttablaðið/gva

Algerlega fráleitt er að hafa saksókn efnahagsbrota á Íslandi á jafnmörgum höndum og raun ber vitni. Þetta sagði Jón Þór Ólason, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, í málstofu um efnahagsbrot á Lagadeginum 2010 sem fram fór í gær.

Jón Þór benti á að hér væru starfandi efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra, sérstakur saksóknari, settir ríkissaksóknarar og skattrannsóknarstjóri. „Það vantar bara afar sérstakan saksóknara,“ bætti hann við og uppskar hlátrasköll viðstaddra. Þetta kerfi er of flókið og kallar á tvöfaldar rannsóknir, að mati Jóns Þórs, sem leggur til að sérstakur saksóknari og efnahagsbrotadeildin verði sameinuð, eins og raunar stendur til, og að skattrannsóknir verði einnig á sviði nýrrar stofnunar.

Jón Þór velti jafnframt upp þeirri spurningu hvort nægilegri sérþekkingu á fjármála- og efnahagsbrotum væri fyrir að fara hjá íslenskum dómstólum til að þeir gætu tekið á málum vegna bankahrunsins. Einnig væri fyrirséð að vandamál sköpuðust þegar finna þyrfti sérfróða matsmenn og meðdómendur sem ekki væru vanhæfir vegna tengsla sinna við viðskiptalífið.

Jón Þór nefndi einnig þá tilhneigingu manna sem sæta ásökunum um lögbrot að bera því við að þeir hafi misskilið lögin. „Það er hentimisskilningur,“ segir Jón Þór, og líkir málflutningnum við frægan frasa úr ranni sjónvarpspersónunnar Georgs Bjarnfreðarsonar. „Gráa svæðið er ekki til,“ segir hann, enda hvíli skylda á þeim sem starfa að viðskiptum sem sérfræðingar að kynna sér það hvort gjörningar þeirra standast lög.

Jón Þór fjallaði einkum um skilasvik í fyrirlestri sínum. Einnig fluttu framsögur Jónatan Þórmundsson, prófessor emerítus, um umboðssvik, og Sigurður Tómas Magnússon prófessor um markaðsmisnotkun. Sagði Sigurður Tómas ýmislegt benda til þess að markaðsmisnotkun hefði átt stóran þátt í efnahagshruninu á Íslandi.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×