Innlent

Þingmaður: Ráðuneytið hefur horn í síðu Sólheima

Árni Johnsen, þingmaður.
Árni Johnsen, þingmaður. Mynd/GVA
„Um langt árabil hefur félagsmálaráðuneytið og fjölmargir ráðherrar haft horn í síðu uppbyggingarinnar á Sólheimum. Í of langan tíma hefur ekki ríkt friður um þessa starfsemi," segir Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Framkvæmdastjóri Sólheima gagnrýndi félagsmálaráðuneytið harðlega í fréttum Stöðvar 2 fyrr í kvöld og sagði framtíð Sólheima ráðast á næstu 60 dögum. Fyrirhugað er að flytja málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga um næstu áramót. Forsvarsmenn Sólheima telja að með breytingunum bresti grundvöllur fyrir starfi Sólheima en þar búa 43 einstaklingar. Ástæðan er sú að Sólheimar fara út af fjárlögum og þjónustusamningur sem ætti að flytjast yfir til sveitarfélagsins er einfaldlega ekki til. Guðmundur Ármann Pétursson, framkvæmdastjóri Sólheima, sagði duttlunga og vinnubrögð félagsmálaráðuneytisins setja velferð íbúanna í algjört uppnám. „Svona gerir maður ekki," sagði Guðmundur.

Árni er sömuleiðis allt annað sáttur við stöðu málu. „Uppbyggingin á Sólheimum hefur verið stórkostlegt og það er ekki að ástæðulausu að þetta samfélag þykir til fyrirmyndar. Á ári hverju koma útlendingar gagngert til landsins til að skoða starfsemina á Sólheimum."

Árni telur að ástæðan fyrir því að félagsmálaráðuneytið hafi sýnt Sólheimum takmarkaðan áhuga á undanförnum árum stafi af því að Sólheimar hafi verið á undan kerfinu að svo mörgu leyti þegar kemur að þjónustu við þroskahefta og fatlaða einstaklinga. „Á Sólheimum er staðið fyrir metnaðarfullu starfi fyrir þetta yndislega fólk."

„Vonandi sjá menn að sér og sinna þessu með metnaði og vinarþeli," segir Árni.


Tengdar fréttir

Sólheimar hugsanlega úr sögunni

Grundvöllur fyrir starfi Sólheima í Grímsnesi að málefnum fatlaðra gæti verið brostinn, segir í samþykkt fulltrúaráðs Sólheima frá því í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×