Innlent

Vill brottvísun síbrotamanns

selfossi Lögreglustjórinn á Selfossi vill síbrotamann burt af landinu.
selfossi Lögreglustjórinn á Selfossi vill síbrotamann burt af landinu.

Maður var handtekinn eftir innbrot í veitingahúsið Kaffi Krús á Selfossi aðfaranótt sunnudagsins.

Lögreglumenn fengu tilkynningu um að þjófavarnakerfi hefði farið í gang á veitingastaðnum og fóru þeir strax á staðinn. Þegar að var komið sást maður á hlaupum frá staðnum. Ekki dugði honum forskotið og náðist hann fljótlega. Hann var handtekinn og færður í fangageymslu.

Við yfirheyrslur á Selfossi viðurkenndi maðurinn aðild að mörgum innbrotum á Selfossi, Hvolsvelli og víðar, þjófnaði á dísilolíu, sölu og dreifingu fíkniefna, framleiðslu og sölu á landa og tvær líkamsárásir.

Þessi sami maður var handtekinn fyrir skömmu vegna innbrots í fyrirtæki á Selfossi.

Vegna síbrota mannsins gerði lögreglustjórinn á Selfossi kröfu um að hann yrði úrskurðaður í gæsluvarðhald í fjórar vikur. Dómari varð við því. Tíminn verður vel nýttur til að ljúka rannsókn, að sögn lögreglu, og er áætlað að ákærur liggi fyrir í þessari viku. Þar sem maðurinn er af erlendu bergi brotinn mun verða farið fram á að Útlendingastofa vísi honum úr landi.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×