Enski boltinn

Drottningin kórónar frábært ár fyrir Howard Webb dómara

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Howard Webb hafði í nóg að snúast í úrslitaleik HM.
Howard Webb hafði í nóg að snúast í úrslitaleik HM. Mynd/AP
Knattspyrnudómarinn Howard Webb og kylfingurinn Graeme McDowell eru meðal þeirra sem fá MBE-heiðursorðuna hjá Elísabetu Englandsdrottningu í dag. Martin Broughton, fyrrum stjórnarformaður Liverpool, er einnig gerður að riddara í dag og ber eftir það titilinn Sir Martin Broughton.

Howard Webb varð í ár fyrsti dómarinn í sögunni til þess að dæma bæði úrslitaleik HM og úrslitaleik í Meistaradeild Evrópu. Webb setti líka nýtt met með því að gefa fjórtán gul spjöld í úrslitaleik Spánverja og Hollendinga og þar á meðal var eitt rautt spjald á Hollendinginn Johnny Heitinga.

„Þetta eru búnir að vera ótrúlegir tólf mánuðir og þessi mikli heiður kórónar einstakt ár," sagði Howard Webb við BBC.

„Það verður mikil lífsreynsla að fara í höllina og hitta drottninguna með konu minni og fjölskyldu. Þetta verður örugglega mjög skemmtileg stund. Ég hef samt alltaf sagt að dómgæsla sé liðsíþrótt og ég hef notið góðs af stuðningi aðstoðarmanna minna, þeirra Darren Cann og Mike Mullarkey. Án þeirra hefði ég ekki fengið að dæma úrslitaleikinn," sagði Webb.

Graeme McDowell er 31 árs gamall kylfingur frá Norður-Írlandi sem varð í júní fyrsti evrópski kylfingurinn í 30 ár til þess að vinna opna bandaríska meistaramótið en það var einnig púttið hans sem tryggði Evrópu sigur á Bandaríkjunum í Ryder-bikarnum í haust. McDowell er nú í sjötta sæti á heimslistanum eftir að hafa byrjað árið í 50. sæti.

Martin Broughton, fyrrum stjórnarformaður Liverpool, var ráðinn til þess að sjá um söluna á Liverpool en hann er núverandi stjórnarformaður hjá British Airways.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×