Innlent

Hjálmar: Engin slagsíða gegn konum í BÍ

Hjálmar Jónsson, formaður BÍ.
Hjálmar Jónsson, formaður BÍ.

Hjálmar Jónsson formaður Blaðamannafélags Íslands gerir athugasemdir við ályktun Félags fjölmiðlakvenna sem sagt var frá hér á Vísi í gær. Í ályktuninni sagði að konur væru í minnihluta í stjórnum og nefndum Blaðamannafélagsins.

Í pistli á heimasíðu BÍ segir Hjálmar að það verði ekki undan því vikist að gera athugasemdir við fullyrðingar í ályktuninni. Hann segir rangt að konur séu á varamannabekk í nefndum félagsins. „Svo dæmi séu tekin þá sitja í stjórn styrktarsjóðs BÍ sex manns, fjórar konur og tveir karlmenn,. Þrír eru þar í aðalstjórn, tvær konur og einn karlmaður og þrír í varastjórn, tvær konur og einn karlmaður. Í verðlaunanefnd eru fimm manns, þrjár konur og tveir karlmenn. Í menningar- og orlofshúsasjóði og endurmenntunar- og háskóalsjóði sitja þrír í stjórn, tveir karlmenn og ein kona og er konan formaður stjórnar, eins og verið hefur síðastliðin rúm 10 ár," segir Hjálmar meðal annars.

Hjálmar segir það góðra gjalda vert að ræða kynjaskiptingu í félaginu. „Það verður þó að gæta sanngirni og ég held að Blaðamannafélagið verði ekki sakað um kynjaslagsíðu gagnvart konum undanfarin ár. Staðreyndirnar tala sínu máli. Frá árinu 2006 eða síðustu fjögur árin hafa fimm af sjö aðalstjórnarsætum í BÍ verið skipuð konum og tvö karlmönnum. Konur hafa gegnt báðum embættum formanns og varaformanns sama tímabil og í fjögurra sæta framkvæmdastjórn félagsins hafa setið þrjár konur og einn karlmaður," segir Hjálmar.

Hann bendir ennfremur á að tveir þriðju hlutar félagsmanna BÍ eru karlar og þriðjungur eru konur og segir Hjálmar að það kynjahlutfall hafi haldist mjög svipað undanfarin ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×