Aðalleikkona myndarinnar Karlar sem hata konur, Rooney Mara, er mætt til höfuðborgar Svíþjóðar og byrjuð að gera sig heimakæra í borginni sem og að undirbúa sig fyrir hið krefjandi hlutverk Lisbetar Salander.
Hefur leikkonan unga tekið þessu svo alvarlega að hún meiddist alvarlega á öxl við mótorhjólaæfingar. Talið er að meiðslin setji smá strik í reikninginn og að fresta þurfi tökum í nokkra daga.
Bandaríska tökuliðið með leikstjóranum David Fincher í fararbroddi setur óneitanlega sinn svip á borgina og er tökuliðið byrjað að skjóta nokkrar hópsenur í sænska skerjagarðinum. Með önnur hlutverk í myndinni fara meðal annars Daniel Craig og Robin Wright Penn.
