Innlent

Hafna víkingaþorpi í Engey

Áætlað er að það taki fimm ár að byggja upp víkingaþorp í Engey, meðal annars með aðstoð innlendra og erlendra sjálfboðaliða.Myndir/Casper Art
Áætlað er að það taki fimm ár að byggja upp víkingaþorp í Engey, meðal annars með aðstoð innlendra og erlendra sjálfboðaliða.Myndir/Casper Art
Félagið Landnámsferðir hefur sótt um lóð í Engey undir landnámsþorp með víkingaþema en fengið synjun hjá skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, framkvæmdastjóri Landnámsferða, segir að þrátt fyrir þessa fyrir­stöðu hjá skipulagsyfirvöldum haldi málið áfram.

Ætlunin sé ekki að tjalda til einnar nætur. Áralangur undirbúningur sé að baki og samráð sé haft við hæfa fornleifafræðinga, meðal annars dr. Völu Garðarsdóttur, sem stjórnaði uppgreftrinum á Alþingisreitnum. Þorpið verði byggt eftir námkvæmri forskrift fræðimanna.

„Þetta er einstakt tækifæri fyrir ferðaþjónustu. Við höfum verið í Þýskalandi þar sem fólk dáir íslenska menningu og vill vita meira um landnámið og hvernig þetta byrjaði allt saman,“ segir Sveinn sem kveður verkefnið munu verða fjármagnað af einstaklingum sem ekki sé tímabært að nefna. „Þetta eru að minnsta kosti engir útrásarvíkingar.“

Sveinn segir erlenda handverksfræðinga bíða í röðum eftir að leggja verkefninu lið. Innlendir námsmenn, meðal annars í Tækniskólanum, geti einnig lagt hönd á plóginn. Nýta eigi trjágróður sem til falli á höfuðborgarsvæðinu í uppbyggingu þorpsins og smíði víkingaskipa.

„Við gerum okkur grein fyrir því hversu dýrmæt saga Íslands er. Sagan af landnáminu og fólkinu sem byggði landið er gríðarlega sterk en henni hafa ekki verið gerð nógu góð skil. Ef einhvern tíma er mikilvægt fyrir þjóðina að horfa til arfsins þá er það nú,“ segir Sveinn.

„Fornleifar í Engey hafa enn ekki verið skráðar en það er algjört grundvallaratriði að slíkt verði gert, ef til einhverrar uppbyggingar kemur,“ segir Minjasafn Reykjavíkur meðal annars í sinni umsögn.

„Rétt er að víkingaþorp og staðir þar sem byggt er upp sögulegt umhverfi hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. En slíkur staður þarf að vera vel hugsaður og hannaður til að virðast sannfærandi,“ segir í umsögn Minjasafnsins sem telur umsóknina of ófullkomna til að geta talist raunhæf.

Sveinn segir umsagnir Minjasafnsins og skipulagssviðs byggja á þekkingarleysi og nefnir þar möguleika til hafnaraðstöðu sérstaklega. Þá standi ekki til að reisa þorpið þar sem minjar séu fyrir heldur á svæði sem þegar hafi verið plægt.

Sveinn undirstrikar að mikilvægt sé að þorpið verði einmitt í Engey. „Þannig komast gestirnir frá borginni og inn í tímavél sem flytur þá aftur til landnámsaldar.“ gar@frettabladid.is
Sveinn Hjörtur Guðfinnsson
Víkingar taka land


Fornmenn á sundunum
Í víkingaþorpi
Séð til lands



Fleiri fréttir

Sjá meira


×