Lífið

Hitti indverska framleiðendur

sat hádegisverðarfund með forsetanum Grétar sat hádegisverðarfund með forsetanum og nokkrum indverskum kvikmyndagerðarmönnum í Mumbai.
sat hádegisverðarfund með forsetanum Grétar sat hádegisverðarfund með forsetanum og nokkrum indverskum kvikmyndagerðarmönnum í Mumbai.

„Við fórum þangað til að hitta framleiðendur og leikstjóra og kanna aðeins jarðveginn fyrir frekara samstarf. Hvað kemur út úr þessari ferð verður síðan bara að koma í ljós,“ segir Grétar Örvarsson tónlistarmaður, en hann var á Indlandi með forseta Íslands til að kynna landið sem hentugan vettvang fyrir indverska kvikmyndagerð.

Eins og Fréttablaðið greindi frá síðasta sumar var Grétar indverskum kvikmyndagerðarmönnum innan handar þegar þeir komu hingað til Íslands til að taka upp tónlistarmyndbönd fyrir kvikmyndir sínar. Tveir hópar komu hingað til landsins með stuttu millibili og þær kvikmyndir eru annaðhvort á leiðinni í kvikmyndahús eða hafa þegar verið frumsýndar.

Grétar hitti nokkra af helstu framleiðendum Mumbai ásamt Einari Tómassyni hjá Film in Iceland. Þá sátu þeir félagar hádegisverðarboð í Mumbai ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni og nokkrum kvikmyndagerðarmönnum. Þegar forsetahjónin héldu síðan til Delí fóru Grétar og félagar til Chennai þar sem þeir héldu Íslandskynningunni áfram. Grétar er bjartsýnn á að enn stærri verkefni gætu ratað hingað til lands, jafnvel frá sjálfri Bollywood, og segir að slíkt geti skipt sköpum fyrir íslenska ferðaþjónustu.

„Lönd eins og Sviss sem indverskir kvikmyndagerðarmenn hafa nýtt sér að undanförnu hafa notfært sér þetta mjög mikið í auglýsingum sínum fyrir landið á Indlandi og þetta getur haft mikil áhrif á fjölda ferðamanna frá Indlandi hingað,“ segir Grétar.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.