Innlent

Ákærður eftir mótmæli gegn striðsrekstri

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lárus Páll Birgisson var að mótmæla stríði.
Lárus Páll Birgisson var að mótmæla stríði.

Lárus Páll Birgisson sjúkraliði hefur verið ákærður eftir mótmæli við Sendiráð Bandaríkjanna þann 1. október í fyrra. Hann er ákærður fyrir að fylgja ekki fyrirmælum lögreglunnar.

„Ég stóð fyrir framan bandaríska sendiráðið með mótmælaspjald. Við vorum þrír saman þar sem við mótmæltum stríðsrekstri og hernaði almennt," segir Lárus Páll. Hann segir að lögreglumenn hafi beðið sig og félaga sína um að færa sig um set. Hann hafi hins vegar neitað að verða við þeirri ósk lögreglunnar og tjáð þeim að hann væri ekki innan lóðamarka sendiráðsins. „Ég bauðst nú til þess að sýna þeim útprentun af lóðamörkum úr Borgarvefsjá sem sýnir að þetta er almenn gangstétt og hverjum manni frjálst að tjá hug sinn þarna. Það gekk ekki og ég var handtekinn," segir Lárus Páll.

Lárus Páll segist ekkert skilja í því að hann sé ákærður fyrir þetta en ekki árásina gegn Alþingi sem níu manns hafa verið ákærðir fyrir. Hann segist hafa fengið réttarstöðu sakbornings við rannsókn á því máli. Hann sé eini maðurinn sem hafi lent í þeirri stöðu en ekki verið ákærður.

Lárus Páll segir ekki koma til greina af sinni hálfu að greiða sekt vegna mótmælanna við sendiráðið þótt hann verði dæmdur sekur. Þá sé eins og hann sé að viðurkenna sekt í málinu. „Ef ég verð dæmdur sekur þá er ég að fara í fangelsi," segir Lárus Páll.

Málið gegn Lárusi Páli verður þingfest í héraðsdómi á mánudaginn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.