Innlent

Lögregla hafi frumkvæði að brottvísun erlendra glæpamanna

Vinnuhópur dómsmála- og mannréttindaráðherra um aukið eftirlit með útlendingum til að uppræta skipulagða glæpastarfsemi hér á landi leggur til að að frumkvæði að beitingu brottvísana verði fært til lögreglu sem undirbúi mál til ákvarðanatöku hjá Útlendingastofnun. Lögreglan annist þannig undirbúning máls í samræmi við ákvæði laga um útlendinga og ábyrgðin á því liggi hjá því lögregluembætti sem rannsakar mál viðkomandi útlendings.

Ragna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra, setti vinnuhópinn á fót í desember síðastliðnum til að kanna möguleika innan gildandi laga og alþjóðlegs samstarfs til að efla eftirlit með útlendingum og tryggja að nýttar séu þær heimildir sem til staðar eru til þess að uppræta skipulagða glæpastarfsemi hér á landi. Vinnuhópurinn hefur nú skilað Rögnu 16 tillögum til úrbóta. Hún hefur í framhaldinu falið samráðsnefnd lögreglu og Útlendingastofnunar um útlendingamál að fylgja tillögum vinnuhópsins eftir.

Vinnuhópurinn leggur meðal annars til að lögregla nýti betur þá kosti sem felast í Schengen-samstarfinu. Aðgangur að gagnabönkum, fagstofnunum og aðild að alþjóðlegum samningum stuðli að sterkari stöðu lögreglu á Íslandi í baráttunni við skipulagða alþjóðlega brotastarfsemi. Hægt sé að gera mun betur til þess að vega upp ókosti Schengen samstarfsins og jafnframt að nýta betur þá kosti sem samstarfið býður upp á en gert er í dag. Vinnuhópurinn leggur ekki til breytingar á framkvæmd landamæraeftirlits en leggur hins vegar til að tekið verið upp nánara samstarf lögreglu og tollgæslu við svæðisbundið eftirlit í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem byggt verður á grundvelli áhættugreiningarlíkans.

Í vinnuhópnum sátu þau Sigríður Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sem var jafnframt formaður, Jón Pétur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, Guðbrandur Guðbrandsson, lögreglufulltrúi hjá alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra, Jóhann Karl Þórisson, aðalvarðstjóri hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins og Þorsteinn Gunnarsson, forstöðumaður hælissviðs Útlendingastofnunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×