Innlent

Uppáskriftir lækna misnotaðar í vaxandi mæli

Karen Kjartansdóttir skrifar
Örvandi lyf sem læknar skrifa upp á eru í vaxandi mæli misnotuð af fíkniefnaneytendum. Yfirlæknir á Vogi og framkvæmdastjóri Geðhjálpar segja að að læknar verði að bregðast við en dauðsföll megi rekja til aðgerðaleysis.

Sprautufílkar ásælast í æ meira mæli örvandi læknalyf á borð við Rítalín og amfetamín að sprauta sig með. Talið er að um sjöhundurð sprautufíklar séu hér á landi.

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segir að brýnt sé að bregðast við stöðunni. Hert aðhald geti skilað árangri það hafi til dæmis sýnt sig þegar stemmt var stigu við misnotkun á verkjalyfinu Contalgini fyrir um þremur árum.

„Núna í kreppunni er meiri ásókn meðal sprautufíkla í til dæmis Rítalín, það er með algengari vímuefnum sem sprautað er í æð í dag. Þar þarf að taka til hendinni að mínu mati," segir Þórarinn.

Hann segir uppáskriftir lækna mjög vel skráða hér á landi hins vegar þurfi að setja mannaafla hjá Landlæknisembættinu í að fylgjast með þessum skráningum og grípa inn í þegar þarf á að halda.

„Það virðist vera það mikil ásókn í örvandi lyfin núna að það er full ástæða til að athuga þessi mál gaumgæfilega," segir Þórarinn.

Mikið af þeim sem misnota lyf eiga við geðræn vandamál að stríða. Sveinn Magnússon, framkvæmdastjóri Geðhjálpar hefur haft reynslu af þeim hópi.

„Hingað sækja skjólstæðingar og aðstandendur þeirra sem lýsa því hreint og beint yfir að þeir eigi greiðan aðgang að efnum sem við köllum í daglegu tali læknadóp," segir Sveinn.

Hann segir stefnu Persónuverndar hafa reynst fjötur um fót við að koma í veg fyrir að hægt sé að girða fyrir misnotkun á Læknalyfjum.

Áhrif þessarar miklu misnotkunar séu skelfileg. „Það eru dæmi sem við þekkjum frá fyrstu hendi að einstaklingar sem hafa haft greiðan aðgang að þessu þeir hafa látið lífið því miður," segir Sveinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×