Enski boltinn

Talsmaður Terry: Mun ekki tjá sig fyrr en hann ræðir við Capello

Ómar Þorgeirsson skrifar
John Terry.
John Terry. Nordic photos/AFP

Enski Varnarmaðurinn og landsliðsfyrirliðinn John Terry hjá Chelsea hefur verið í brennidepli breskra fjölmiðla undanfarið eftir að upp komst um framhjáhald leikmannsins með barnsmóður og fyrrum unnustu Wayne Bridge, fyrrum liðsfélaga síns hjá Chelsea og enska landsliðinu.

Terry hefur nú meðal annars fengið frí frá Chelsea til þess að leysa úr fjölskylduvandamálum sínum en flestra augu beinast nú að landsliðsþjálfaranum Fabio Capello og hvort hann ætli að svipta Terry fyrirliðabandinu hjá landsliðinu.

Capello er þekktur fyrir strangar umgengnisreglur í kringum landsliðið og því ekki von á góðu ef menn fá hann upp á móti sér. Bæði BBC og Sky Sports fréttastofurnar greindu frá því í gær að þær hefðu heimildir fyrir því að Terry ætlaði ekki að afsala sér bandinu fyrr en hann hefði rætt við Capello sem ku vera væntanlegur til Englands í dag eða á morgun.

Talsmaður Terry, Phil Hall, hefur nú hins vegar stigið fram og ítrekað fyrir hönd varnarmannsins að hann hafi hvorki né ætli að gefa frá sér yfirlýsingu um málið fyrr en hann hafi rætt við Capello.

„Terry ætlar að halda sýnum ákvörðunum og skoðunum fyrir sjálfan sig í bili þangað til hann hefur talað við landsliðsþjálfarann og þá mun herra Capello ákveða hvernig yfirlýsingunni verði háttað," segir Hall í viðtali við Sky Sports.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×