Innlent

Krókódíll át boltann

Guðlaugu K. Pálsdóttur ætlaði ekki að trúa sínum eigin augum þegar hún horfði á krókódíl taka golfboltann hennar og mjaka sér út í tjörn með hann í kjaftinum.
Guðlaugu K. Pálsdóttur ætlaði ekki að trúa sínum eigin augum þegar hún horfði á krókódíl taka golfboltann hennar og mjaka sér út í tjörn með hann í kjaftinum.
„Þegar ég kom að boltanum sá ég að hann hafði ekki lent í tjörninni eins og hélt. Hann hafði stoppað á hryggnum á krókódíl sem lá þarna í makindum sínum,“ segir Guðlaug K. Pálsdóttir, sem nýlega var við golfleik á Providence-golfvellinum í Flórída í Bandaríkjunum. „Ég fullyrði að krókódíllinn glotti í áttina til mín þegar hann tók boltann í kjaftinn og stakk sér í tjörnina.“

Guðlaug og eiginmaður hennar, Kristján Þór Sveinsson, höfðu ásamt vinum hafið leik snemma dags og vissu ekki hvað beið þeirra á hinum glæsilega Providence-golfvelli, sem byggður hefur verið upp á undanförnum árum.

Guðlaug útskýrir að eftir gott upphafshögg á fyrstu braut hafi annað höggið mistekist. Var hún þess fullviss að boltinn hefði farið í tjörn sem er við brautina. „Ég ætlaði ekki að trúa eigin augum þegar ég sá hvers kyns var. Ég komst síðar að því að staðarreglur kveða á um að golfari í hættu fái frídropp.“

Þegar blaðamaður spurði hvernig það hefði verið að snúa baki í tjörnina þegar leik var haldið áfram eftir myndatöku segir Guðlaug: „Það var sérstakt. Króksi var ekki stór en ég held að Íslendingur geti ekki gert sér grein fyrir hættunni sem stafar af krókódílum við golfiðkun.“ Guðlaug bætir við að hún verði sennilega þolinmóðari við „erfiðar“ aðstæður á Íslandi. Eins og til dæmis að sætta sig við það þegar kríurnar ganga hart fram við að verja hreiðrin úti á Seltjarnarnesi.

Þær upplýsingar fengust hjá einum af golfkennurunum á Providence-golfvellinum að þessi uppákoma væri einstök. Vissulega væri mikið dýralíf við völlinn, enda er hann á miðju verndarsvæði. „Það eru krókódílar við alla golfvelli í Flórída en ég hef aldrei heyrt um neitt þessu líkt þau fimmtán ár sem ég hef starfað hér“, sagði golfkennarinn sem vildi ekki láta nafns síns getið. Hann skildi blaðamann nefnilega þannig að Guðlaug og hennar fólk ætlaði að fara í mál við fyrirtækið. Hann sagðist þess fullviss að golfboltinn hefði lent á krók­ódílnum og hann hafi verið að verja sig. Þar hitti hann naglann á höfuðið.

„Það var virkilega gaman að þessu, fyrst enginn missti útlim“, segir Guðlaug að endingu.

svavar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×