Lífið

Hinn íslenski Harry Potter

Albert Hauksson fer með hlutverk Harry Potter í uppfærslu Menntaskólans við Sund, en hann útsetur einnig alla tónlistina í sýningunni.
Albert Hauksson fer með hlutverk Harry Potter í uppfærslu Menntaskólans við Sund, en hann útsetur einnig alla tónlistina í sýningunni. Vísir/Stefán
Leikfélag Menntaskólans við Sund frumsýnir á næstunni rokksöngleik um galdrastrákinn Harry Potter. Albert Hauksson fer með aðalhlutverkið en hann þykir ekkert sérstaklega líkur Harry Potter úr kvikmyndunum.

„Ég skrifaði leikgerð upp úr fjórðu, fimmtu og sjöttu bókinni. Fjórða og fimmta bókin hafa verið kvikmyndaðar svo fólk þekkir þær, en sú sjötta kemur ekki fyrr en næsta sumar svo við erum svolítið að fara að frumsýna það efni," segir Kolbrún Björt Sigfúsdóttir um hinn íslenska Harry Potter rokksöngleik sem leikfélag Menntaskólans við Sund er að setja upp um þessar mundir. Kolbrún skrifaði leikgerðina upp úr sögunum um galdrastrákinn, íslenskaði texta við nokkur vel valin erlend lög og leikstýrir söngleiknum ásamt eiginmanni sínum Erlingi Grétari Einarssyni.

Albert Hauksson fer með hlutverk Harry Potter í uppfærslunni og aðspurð segir Kolbrún hann hafa selt þeim Erlingi hugmyndina í prufunum.

„Albert er með gleraugu en ekki dökkhærður. Það hjálpar okkur svolítið að gera þetta ólíkt kvikmyndunum því við viljum ekki apa eftir þeim. Við leggjum til dæmis meiri áherslu á hluta Voldemorts og ástarsöguna í þessu með sambandi Hermione og Rons," segir Kolbrún.

Söngleikurinn verður frumsýndur 17. febrúar í Loftkastalanum, sem mun á sama tíma opna eftir eigendaskipti undir rekstrarstjórn Bjarna Hauks Þórssonar. „Við ætlum að vera svolítið grand á því á frumsýningunni. Það var mikill heiður að fá inni í Loftkastalanum því fleiri sóttust eftir að sýna á þessum tíma, svo við erum mjög ánægð," segir Kolbrún. 

alma@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.