Lífið

Bræður berjast

Faðir kvelur syni sína en svo snúast spilin við. Mynd/LR-Grímur Bjarnason
Faðir kvelur syni sína en svo snúast spilin við. Mynd/LR-Grímur Bjarnason
Á Nýja sviði Borgarleikhússins hafa menn fylgt þeirri stefnu að kynna íslenskum áhorfendum ný erlend verk og á morgun verður þar frumsýnt írskt verk: Heima er best eftir Enda Walsh.

Höfundurinn Enda Walsh er fæddur 1967 í Dublin og hafa verk hans verið sviðsett víða um heim. Tvö leikrita hans hafa verið sýnd hérlendis, Disco Pigs og Misterman. Heima er best (Walworth Farce) hlaut afbragðs viðtökur þegar það var frumsýnt í National Theatre í London í fyrra.

Feðgar búa þrír í lítilli íbúð í úthverfi: Þröstur Leó Gunnarsson fer með hlutverk föðurins sem hefur í nær tvo áratugi læst syni sína tvo inni þar sem hann stjórnar þeim með harðri hendi í örvæntingarfullri tilraun til að halda fjölskyldunni saman. Synirnir Blake og Sean, sem þeir Guðjón Davíð Karlsson og Jörundur Ragnarsson leika, hafa lært að lifa með harðræðinu en eiga sér samt þann draum að komast út. Þessu gráa gamni lýkur þegar fjórða manneskjan bankar á dyr en hana leikur Dóra Jóhannsdóttir.

Jón Páll Eyjólfsson leikstjóri er ekki þekktur fyrir að hlífa áhorfandanum og gerir hann það ekki heldur hér. Meðal fyrri uppsetninga hans er Maríubjallan (LA), Herra Kolbert (LA), Vestrið eina (Borgarleikhúsið) og Þú ert hér (Borgarleikhúsið).

Sýningartímabil verka á nýja sviðinu er skarpt og er haldið áfram fyrirkomulagi sem tekið var upp í Borgarleikhúsinu á síðasta ári. Hvert verk er sýnt oft í viku í fyrir fram ákveðinn tíma sem er ekki lengri en fjórar vikur í senn.

Þýðandi er Heiðar Sumarliðason en hann mun eiga verk á sviði Borgarleikhússins er líður á veturinn. Leikmynd og búningar annast Ilmur Stefánsdóttir. pbb@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.