Innlent

Samfylkingarmenn undrandi yfir formennsku þingmanns VG

Frá þingflokksfundi Samfylkingarinnar.
Frá þingflokksfundi Samfylkingarinnar. Mynd/Pjetur
Samfylkingarmenn undrast að þingmaður Vinstri grænna taki að sér formennsku í samtökum sem berjast gegn helsta stefnumáli Samfylkingarinnar.

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri grænna, var kosinn formaður Heimssýnar á aðalfundi félagsins í gær en félagið berst gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Samfylkingin setti Evrópumálin á oddinn fyrir síðustu kosningar og í sumar samþykkti alþingi að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem fréttastofa ræddi við í dag undrast þá ákvörðun Ásmundar að taka að sér forystu í félaginu. Eitt sé að vera á móti Evrópusambandinu en annað að beinlínis leiða samtök sem berjast gegn helsta stefnumáli samstarfsflokks Vinstri grænna í ríkisstjórn.

„Eins og hefur legið fyrir þá eru Vinstri grænir alfarið á móti Evrópusambandsaðild og ég greiddi atkvæði gegn þessu og greiddi atkvæði gegn þessu hérna í þinginu þegar þessi þingsályktun var samþykkt. Það er ekkert óeðlilegt við það að í svona þverpólitískum samtökum eins og Heimssýn séu Vinstri grænir þar mjög virkir rétt eins og sjálfstæðismenn og framsóknarmenn eru," segir Ásmundur Daði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×