Innlent

Fólk í árabát í sjálfheldu við Apavatn

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Fólkinu komið heilu og höldnu í land.
Fólkinu komið heilu og höldnu í land.
Lögreglan á Selfossi, björgunarsveitin Ingunn á Laugarvatni og hjálparsveitin Tintron, voru kölluð að Apavatni nú um sjö leytið til að aðstoða fólk um borð í árabát, eftir að bátinn rak frá landi.

Tveir fullorðnir og tvö ungmenni voru um borð í bátnum og áttu þau í mestu vandræðum með að snúa bátnum í átt að landi. Rak bátinn líklega um 600 metra út á vatnið að sögn sjónarvotts sem hafði samband við fréttastofu. Kallað var eftir aðstoð fyrrnefndra björgunarsveita ásamt lögreglu sem sóttu fólkið á slöngubát.

Fólkið hafði leigt árabát á staðnum en skömmu eftir að út var komið hvessti snögglega með fyrrgreindum afleiðingum.

Svanur Kristinsson, varðstjóri lögreglunnar á Selfossi, segir í viðtali við Vísi að það hafi tekið mjög skamman tíma að sækja fólkið. „Báturinn var einfaldlega á reki en fólkið hafði tapað árunum. Það er alltaf hætta þegar stjórnlaust farartæki er á ferð og það á ekki síður við um báta, en sem betur fer gekk þetta farsællega og engin meiðsl urðu á fólki," sagði Svanur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×