Innlent

Fæða uppi á landi

Barnshafandi konur í Vestmannaeyjum eru ósáttar við að skurðdeildinni á sjúkrahúsi bæjarins hafi verið lokað í sumar. Þeim er ráðlagt að fara upp á land til að fæða.

Skurðdeild Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja var lokað tímabundið 1. júní í sparnaðarskyni. Deildin verður lokuð á meðan starfsfólk er í sumarfríi og verður ekki opnuð aftur 13. júlí. Á meðan eru þeir sem þurfa á aðgerðum að halda sendir á Landspítalann með sjúkraflugi, svo sem þeir sem fá botnlangakast.

Lokunin þýðir einnig að barnshafandi konum, sem eru að ganga með sitt fyrsta barn eða hafa gengið í gegnum erfiða fæðingu, er ráðlagt að fara upp á land til að að eiga þar sem ekki er skurðlæknir til taks ef eitthvað kemur upp á. Ein þeirra er Sigríður Unnur Lúðvíksdóttir sem er komin rúma átta mánuði á leið en hún er ósátt við að geta ekki fætt í Eyjum. Hún segir óöryggi skapast af því að loka skurðdeildinni og að sumar þeirra sem fari til Reykjavíkur til að fæða verði fyrir nokkrum kostnaði vegna þess. Bæjarbúar hafi jafnframt áhyggjur af því hversu langt verði gengið í sparnaðaraðgerðum á sjúkrahúsinu.

Gunnar K. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja, sagði í samtali við fréttastofu í dag að níu milljónir sparist með því að loka deildinni í sex vikur. Hann geri sér grein fyrir því að óánægja sé meðal bæjarbúa með að þessi leið hafi verið farin. Tímasetningin hafi verið valin með það í huga að á þessum tíma er veður yfirleitt þannig að hægt er að fljúga milli lands og eyja.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×