Innlent

Forseti Íslands kynnti málstað Íslendinga í Kýpur og í Litháen

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson hefur farið til Kýpur og Litháen í sumar.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur farið til Kýpur og Litháen í sumar.
„Á undanförnum vikum og mánuðum hefur forseti Íslands hitt að máli þjóðhöfðingja og forystumenn allmargra ríkja, m.a. í heimsókn sinni til Kýpur nýverið vegna Smáþjóðaleikanna og Litháen þar sem hann tók þátt í hátíðarhöldum vegna þúsund ára þjóðarafmælis." Þetta segir í svari forseta Íslands við fyrirspurn fréttastofu um það með hvaða hætti forsetinn hafi tekið þátt í að kynna málstað Íslands í Icesave deilunni.

Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara, skrifaði nýlega greinar í fjögur erlend blöð þar sem hún tók upp málstað Íslendinga í Icesave deilunni. Eftir að greinarnar birtust hafa sérfræðingar á sviði almannatengsla fullyrt að íslensk stjórnvöld hafi ekki gert nógu mikið í því að kynna málstað Íslendinga á erlendum vettvangi. Fréttastofa spurði þess vegna forsetann að því með hvaða hætti hann hefði komið að því að kynna málstað Íslendinga í deilunni og hvort hann hygðist standa að eða taka þátt í slíku kynningarstarfi á næstunni.

Forsetinn segir að bæði í heimsókninni til Kýpur og í Litháen hafi hann átt viðræður við marga þjóðarleiðtoga og sérstaka fundi með nokkrum þeirra. Þá hafi hann á undanförnum vikum átt viðræður hér heima við erlenda sérfræðinga, áhrifamenn og fjölmiðlafólk.

Forseti segir hins vegar að samkvæmt íslenskri stjórnskipan fjalli ráðherrar um þau mál sem þeir og ríkisstjórn leggi fyrir Alþingi. Forsetar hafi ekki verið talsmenn einstakra frumvarpa. Hins vegar hafi bæði núverandi og fyrrverandi forsetar komið að því með ýmsum hætti að kynna málstað Íslands á erlendum vettvangi og við erlenda ráðamenn og þá oft í samvinnu við íslensk stjórnvöld á hverjum tíma.

Fréttastofa hefur ítrekað í dag reynt að ná sambandi við Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra til að spyrja hann að því með hvaða hætti ráðherra hefði komið að kynningarstarfi á málstað Íslendinga og með hvaða hætti hann hygðist gera það. Ekki hefur náðst í ráðherrann, en hann er staddur erlendis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×