Erlent

Norska stórþingið gæti hrunið

Óli Tynes skrifar

Bæði norska stórþingið og konungshöllin gætu hrunið ef skjálfti á borð við þann sem varð í Osló árið 1904 gengur aftur yfir að mati ráðgjafastofu verkfræðinga í Noregi.

Öysten Löset verkfræðingur segir í viðtali við norska blaðið Dagsavisen að í raun séu aðeins hús sem reist voru eftir árið 2005 örugg fyrir jarðskjálftum. Stórþingið var tekið í notkun árið 1865.

Hann telur að nauðsynlegt sé að styrkja lykilbyggingar eins og stórþingið, slökkvistöðvar, lögreglustöðvar, björgunarmiðstöðvar og stjórnsýslubyggingar.

Eftir stórslys sé það afgerandi að mikilvægustu stofnanir landsins séu áfram starfhæfar.

Löset segir að smáskjálftar séu tíðir í Osló. Það geti alveg verið 200 ár í næsta stóra skjálfta, en hann geti líka komið á morgun.

Jarðskjálftafræðingurinn Hilmar Bungum skrifaði nýlega grein í tímarit bandarísku jarðskjálftastofnunarinnar. Hann er sammála því að rétt sé að styrkja lykilstofnanir.

Stórþingið hafi ágætlega staðið af sér skjálftann sem varð fyrir 105 árum, en hann mun hafa verið um 5,4 á Richter skala.

Næsti stóri skjálfti geti hinsvegar verið enn öflugri.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×