Erlent

Fundu 6.000 ára gamlan mannsheila í Armeníu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Höfuðkúpan sem innihélt heilann forna.
Höfuðkúpan sem innihélt heilann forna. MYND/PressTV

Hann er talinn vera um 6.000 ára gamall, heilinn sem Gregory Areshian frá Kaliforníuháskóla í Los Angeles gróf upp í helli skammt frá ánni Arpa í Armeníu, rétt við landamæri Írans.

Í hellinum fundust að auki mannvistarleifar sem varpað geta ljósi á ótrúlegustu hluti, til dæmis víngerð eins og hún var stunduð fyrir mörg þúsund árum. Rannsakendur fundu þrjár höfuðkúpur í hellinum, sem er um 600 fermetrar að stærð, og þykir sýnt að þær hafi tilheyrt stúlkum, 12 til 14 ára gömlum, sem voru teknar af lífi, mögulega við einhvers konar fórnarathafnir.

Í einni höfuðkúpunni uppgötvuðu vísindamennirnir svo ótrúlega vel varðveittan heila. Meira að segja æðarnar eru nokkuð heillegar og úr þeim tókst að ná leifum af blóði sem nú er verið að rannsaka ítarlega. Á sama stað fundust pottar og önnur búsáhöld, hnífar og fræ rúmlega 30 ávaxtategunda.

Talið er að þurrt og hlýtt loftið í hellinum hafi stuðlað að varðveislu þessara eldfornu mannvistarleifa sem ættu að geta gefið glöggar vísbendingar um lifnaðarhætti löngu horfinna kynslóða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×