Lífið

Hasar að hætti Seagals á svið

Cobra Kai Hjörtur, Dóri, Bjössi og Snorri svitna fyrir þig í Leikhús-Batteríinu. Fréttablaðið/GVA
Cobra Kai Hjörtur, Dóri, Bjössi og Snorri svitna fyrir þig í Leikhús-Batteríinu. Fréttablaðið/GVA

„Við erum einmitt að fínstilla bardagaatriðin," segir Halldór Halldórsson, betur þekktur sem Dóri DNA um sýningu leikhópsins Cobra Kai, Kata-Dori: !!Seagal!! sem frumsýnd verður á laugar­daginn í Leikhús-Batteríinu.

„Það sem við erum að reyna að gera er að skapa okkur nýja stefnu sem við köllum „action-theater", sem sækir margt í gamlar hugmyndir Brechts um sjónarspil leikhússins í bland við „action"-hlaðna æsku okkar. Þetta er undir áhrifum níunda áratugarins og það sem við getum kallað Planet Hollywood-gengisins, Schwarzenegger, Bruce Willis, Sylvester Stallone og Van Damme."

Sýningin einblínir þó á gamla brýnið Steven Seagal. „Í einhverjum æsingi, þegar við erum að tala um þessar myndir, þá fer einhver að tala illa um Steven Seagal, eins og siður er. Ég tók það ekki í mál. Við fundum þarna eitt atriði á youTube og horfðum á það og það var svo magnað, stígandinn í því var svo geðsjúkur að við hugsuðum bara, þetta verður að komast á svið. Þetta á erindi við kreppta þjóð." Með honum í verkinu eru Hjörtur Jóhann Jónsson, Snorri Engilbertsson og Björn Leó Brynjarsson, en þeir stunda allir nám tengt leikhúsi í Lista­háskólanum.

Dóri segir hópinn sprenglærðan í hverlags bardagaíþróttum en sjálfur útfærði hann bardagaatriðin í kvikmyndinni Veðramót. „Það er mikil harka í þessu hjá okkur. Mörkin milli alvöru og leikhúss eru svo þunn, eins og landamæri Mosfellsbæjar og Reykjavíkur, bara tveir metrar, þú sérð þetta varla. Þetta verður æsispennandi, við lofum því. Allir aðdáendur leikhúss, ofbeldis, hasars og húmors ættu endilega að mæta." Miðapantanir eru í síma 897-0496. - kbs








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.