Innlent

Gekk í skrokk á sambýliskonu og kýldi löggu

Þrjátíu og fimm ára gamall erlendur karlmaður var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í í tólf mánaða fangelsi fyrir hrottalega líkamsárás á fyrrum sambýliskonu sína, umferðarlagabrot og fyrir að hafa kýlt lögregluþjón. Maðurinn reyndi einnig að skalla annan lögregluþjón þegar hann var fluttur í fangageymslur lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu. Af þessum tólf mánuðum eru níu skilorðsbundnir. Maðurinn játaði brot sín skýlaust fyrir dómi.

Maðurinn var meðal annars ákærður fyrir að hafa ráðist með ofbeldi á fyrrverandi sambýliskonu sína í október á síðasta ári og slegið hana hnefahöggi í andlitið þar sem hún lá í rúmi í svefnherbergi íbúðarinnar. Auk þess tók hann hana upp, henti henni í gólfið og sló hana í hnakkann. Maðurinn hélt áfram að veitast að konunnin inni á baðherbergi íbúðarinnar. Þar kastaði hann henni meðal annars í gólfið, sparkaði nokkrum sinnum í bak hennar auk þess sem hann greip í handleggi hennar og steig ofan á hana.

Af árásinni hlaut konan mar á enni, bak við vinstra eyra og á höku hægra megin, grunnan 5 sm skurð á mjóbakið, eymsli yfir rifbeinum og í kviðarholi, mar á öxl og upphandlegg, marga yfirborðs­áverka á framarmi, úlnliði og hendi, mar á olnboga, hné og ökkla og sprungur á tveimur miðhandarbeinum og brot í ystu kjúku hægri löngutangar.

Maðurinn var síðan stöðvaður í desember á síðasta ári á bifreið sem hann ók undir áhrifum áfengis án þess að hafa ökuskírteini meðferðis. Hann var stöðvaður fyrri að sýna ekki nægilega aðgæslu þegar hann beygði af vinstri akrein til móts við Grensásveg 10 þannig að önnur bifreið sem ekið var á hægri akrein og á ljósastaur þar sem akstrinum lauk.

Í kjölfarið af þessu atviki var hann fluttur í fangamóttöku lögreglustöðvarinanr á Hverfisgötu þar sem hann sló lögreglumann hnefahöggi í vinstri kjálka. Skömmu síðar gerði hann tilraun til að skalla annan lögreglumann í andlitið í varðstjóraherbergi stöðvarinnar en lögreglumaðurinn náði að víkja sér frá.

Fyrir dómi játaði maðurinn skýlaust öll brot sín og var í kjölfarið dæmdur í 12 mánaða fangelsi. Fresta skal fullnustu 9 mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum 2 árum.

Maðurinn var einnig sviptur ökuréttindum í þrjú ár. Auk þess var hann dæmdur til þess að greiða fyrrum sambýliskonunni 600.000 krónur í skaðabætur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×