Lífið

Steinunn í viðtali hjá bandarísku tímariti

Steinunn segir að erfitt sé fyrir lítil fyrirtæki að komast inn á Bandaríkjamarkað.fréttablaðið/anton
Steinunn segir að erfitt sé fyrir lítil fyrirtæki að komast inn á Bandaríkjamarkað.fréttablaðið/anton

Steinunn Sigurðardóttir fatahönnuður fær aðstoð við að koma sér á framfæri í Bandaríkjunum. Stórt bandarískt viðskiptatímarit var með umfjöllun um hana.

Tímaritið Fortune Small Business fjallar um fatahönnuðinn Steinunni Sigurðardóttur í nýjasta hefti sínu. Tímaritið er í eigu Time-útgáfunnar sem gefur meðal annars út tímaritin Time, Sports Illustrated, Entertainment Weekly og Fortune. Fortune Small Business er viðskiptablað sem sérhæfir sig í umfjöllunum um smærri fyrirtæki.

Viðtalið er hluti af föstum lið sem nefnist „small business make-over“ þar sem smærri fyrirtæki fá ráðleggingar við reksturinn. Í viðtalinu kemur fram að Steinunn vilji opna sérverslanir með hönnun sinni víðs vegar í Bandaríkjunum á næstu fimm árum en að hana skorti nægilegt fjármagn og sambönd til að brjótast inn á þann markað. Fortune Small Business leitaði ráða hjá þremur sérfræðingum til að vega og meta þá valkosti sem Steinunn gæti nýtt sér við að skapa fyrirtæki sínu sess á bandarískum markaði. Tímaritið mun síðan fylgjast áfram með ferlinu og fjalla um það.

Í greininni spyr Alana Varel, einn þeirra sérfræðinga sem tímaritið ræddi við, Steinunni hvort hún hafi stungið upp á samstarf við þekktar íslenskar konur og nefnir í því samhengi Björk og leikkonuna Anitu Briem. Annar sérfræðingurinn, verslunareigandinn Alissa Emerson, ráðleggur Steinunni að vera sýnilegri og sækja tískuviðburði og kynna á þann veg hönnun sína fyrir mögulegum viðskiptavinum. Markaðsfræðingurinn Ketty Maisonrouge bendir á að góður kostur væri að opna verslun til skamms tíma í auðu húsnæði.

Fréttablaðið náði tali af Steinunni og segist hún telja sig heppna að hafa fengið þessa yfirhalningu. „Þetta kom til vegna þess að pródúserinn hjá CNN.com keypti föt úr línu minni í Boston og datt í hug að það væri sniðugt að taka lítið fyrirtæki frá Íslandi og setja það í þetta ferli. Þetta var rosa langt og mikið viðtal en tilgangur þess er að hjálpa mér að ná mínu markmiði. Þeir munu svo fylgjast með mér áfram. Greinin ein og sér er mjög góð auglýsing og ég tel mig vera heppna að hafa fengið svona yfirhalningu,“ segir Steinunn.

Hægt að lesa viðtalið við Steinunni á vefsíðunni money.cnn.com/smallbusiness.sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.