Innlent

Jóhanna vonast eftir ESB-aðild innan þriggja ára

Jóhanna vonast eftir ESB aðild sem fyrst.
Jóhanna vonast eftir ESB aðild sem fyrst.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra telur að Ísland geti orðið aðili að Evrópusambandinu innan tveggja til þriggja ára.

Hún greindi frá því mati sínu á blaðamannafundi í gær sem haldinn var í kjölfar sumarfundar forsætisráðherra Norðurlandanna á Egilsstöðum.

Jóhanna kynnti norrænum starfsbræðrum sínum gang mála í Evrópusambandsáætlunum ríkisstjórnarinnar. Var þeim vel tekið og buðu forsætisráðherrarnir fram aðstoð við undirbúning aðildarviðræðna.

„Það skiptir miklu máli að hafa Norðurlöndin við bakið á okkur. Það er ómetanlegt að geta leitað til þeirra um ráðgjöf," sagði Jóhanna í samtali við Fréttablaðið.

Sérstaklega telur hún styrk af Svíum sem taka við formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins um næstu mánaðamót. Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, kvað Svía reiðubúna að leitast við að greiða aðildarumsókn Íslendinga leið og koma henni á dagskrá eins fljótt og auðið væri. Jóhanna ræddi sérstaklega við Reinfeldt og telur að það muni skila sér í ferlinu.

Lars Lökke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði vel fara á því að aðildarferli Íslands hæfist í formennskutíð Svía og ánægjulegt væri ef því lyki í formennskutíð Dana en þeir verði við stjórnvölinn í ráðherraráðinu árið 2012.

Jóhanna segir áform ríkisstjórnarinnar ganga út á að Evrópusambandstillaga hennar verði samþykkt fyrri hluta júlímánaðar og að unnt verði að kynna undirbúningsferlið á fundi utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna í júlílok. Formleg aðildarumsókn verði svo lögð fyrir leiðtogafund ESB í lok desember. Hún kveðst bjartsýn á að Alþingi samþykki tillöguna og telur að niðurstaðan verði þvert á alla flokka. Endanleg ákvörðun um aðild ráðist svo af niðurstöðum aðildarviðræðnanna.

„Ég er viss um að við munum ekki þurfa að láta af hendi yfirráð yfir sjávarútvegsauðlindunum en það er mikilvægt að fá að vita hvað er í boði svo við getum valið og hafnað. Ég vil sjá það og komi í ljós einhver vafamál varðandi sjávarútveginn vakna efasemdir hjá mér um að við eigum að ganga alla leið."



Málin rædd Jóhanna og Reinfeldt stungu saman nefjum á Vallanesbúinu í Fljótsdalshéraði.
Undir fánaborg Forsætisráðherrar Norðurlandanna í Hallormsstaðarskógi í blíðviðrinu í gær. fréttablaðið/Bþs


Áritun Þessi austurríska kona bað Jóhönnu að rita nafn sitt í bók sonar síns, Alexanders.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×