Innlent

Heimasíða Vigdísar Finnbogadóttur opnuð á kvenréttindadaginn

Vigdís gegndi embætti forseta Íslands á árunum 1980 til 1996.
Vigdís gegndi embætti forseta Íslands á árunum 1980 til 1996. Mynd/Anton Brink
Heimasíða sem tileinkuð er frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta og velgjörðasendiherra tungumála hjá Sameinuðu þjóðunum, verður opnuð á morgun, kvennréttindadaginn 19. júní.

Fram kemur í tilkynningu að vefsíðan, www.vigdis.is, hefur að geyma gott yfirlit yfir líf og störf Vigdísar ásamt ríkulegu myndasafni. Vinna við síðuna er styrkt af utanríkisráðuneytinu og mun Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, opna hana við hátíðlega athöfn í Hátíðarsal Háskóla Íslands klukkan 14 á morgun.

„Með síðunni er bætt úr brýnni þörf fyrir að gera upplýsingar um Vigdísi Finnbogadóttur aðgengilegar fyrir almenning. Hægt verður að fá gott yfirlit um líf og störf Vigdísar allt frá bernsku til dagsins í dag. Inni á síðunni verður mikill fjöldi mynda sem tengjast löngum, litríkum og glæsilegum ferli hennar," segir í tilkynningunni.

Heimasíðan verður einungis aðgengileg á íslensku fyrst um sinn en ráðgert er að hún verði þýdd yfir á öll opinber tungumál Sameinuðu þjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×