Lífið

Auddi semur við PokerStars

Auðunn Blöndal hyggst ekki gerast atvinnumaður í póker, þetta sé fyrst og fremst skemmtilegt áhugamál. Fréttablaðið/Arnþór
Auðunn Blöndal hyggst ekki gerast atvinnumaður í póker, þetta sé fyrst og fremst skemmtilegt áhugamál. Fréttablaðið/Arnþór

Auðunn Blöndal, sjónvarps­maðurinn góðkunni, hefur samið við eina stærstu pókersíðu heims, PokerStars.com. Og mun framvegis keppa á nokkrum mótum á vegum hennar, bæði hér heima og erlendis. Það fyrsta í röðinni verður í Tallinn í Eistlandi en þangað hefur verið stefnt nokkrum af þekktustu og sterkustu pókerspilurum Norður­landa og Eystrasaltslandanna.

„Ég flýg þangað á þriðjudaginn og mótið sjálft byrjar á fimmtudaginn," segir Auðunn Blöndal en pókeráhugi sjónvarpsmannsins varð fyrst opinber þegar hann fór út til Portúgals fyrir nokkru á vegum Betsson ásamt félaga sínum Agli „þykka" Einarssyni. Þeir kepptu jafnframt á nokkrum mótum hér heima undir formerkjum fyrirtækisins og andlit þeirra voru notuð í auglýsingaherferðum Betsson. En nú er komið að leiðar­lokum í því samstarfi og sjálfskipaður fyrirliði íslenska pókerlandsliðsins verður skilinn eftir heima.

Auðunn er hins vegar kominn á mála hjá sama fyrirtæki og margir af snjöllustu pókerspilarar heims sem mun styrkja hann til þátttöku á nokkrum sterkum pókermótum.

Sjónvarpsmanninum hefur jafnframt verið boðið að taka þátt í Evrópumeistaramótinu, EPT, á vegum Pokerstars.com og ætlar að sækja það ásamt stórvini sínum, Sveppa. Í framhaldinu fá sjónvarpsáhorfendur að sjá Auðun við pókerborðið í fyrsta skipti en eftir því sem Fréttablaðið kemst næst hefur stjarna sjónvarpsmannsins risið þó nokkuð á meðal pókeráhugamanna hér á landi. Hann þykir víst nokkuð lunkinn.

Auðunn segist hins vegar ekki vera farinn að hugleiða neitt í þá veru að segja upp starfinu og hefja feril sem atvinnumaður í póker. „Nei, ég held ekki, þetta er bara áhugamál og skemmtilegt sem slíkt."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.