Lífið

Brown fer sínar eigin leiðir

Hinn áhrifamikli breski tónlistarmaður hefur gefið út sína sjöttu sólóplötu.nordicphotos/getty
Hinn áhrifamikli breski tónlistarmaður hefur gefið út sína sjöttu sólóplötu.nordicphotos/getty

Breski tónlistarmaðurinn Ian Brown hefur gefið út sína sjöttu sólóplötu, My Way. Þar syngur hann um líf sitt og tveggja áratuga feril í tónlistarbransanum.

Ian Brown lítur á plötuna sem sjálfsævisögu sína þar sem hann lítur stoltur yfir farinn veg. „Mér fannst miklu áhugaverðara að búa til tónlistarsjálfsævisögu en hefðbundna sjálfsævisögu,“ segir Brown í viðtali við BBC.

Hann bætir við að metsöluplata Michaels Jackson, Thriller, hafi veitt sér innblástur við upptökurnar. Ákveðinn gæðastimpill varð að vera til staðar.

„Við vorum alltaf með Thriller í huganum. Í hvert skipti sem við sömdum lag og okkur fannst það ekki nógu gott hættum við við að nota það. Við lukum líka við frágang plötunnar daginn sem Michael Jackson dó, þannig að ég lít á það sem ákveðið tákn.“ Ian Brown, sem er 46 ára, var söngvari The Stone Roses þar til hún lagði upp laupana árið 1996. Á þeim tíma var hann átrúnaðargoð á meðal breskra tónlistarunnenda, enda einn af aðalmönnum hinnar svokölluðu Madchester-senu þar sem hver sveitin á fætur annarri frá Manchester-borg steig fram á sjónarsviðið. Má þar nefna Happy Mondays, Inspiral Carpets, James og The Charlatans. Síðan þá hafa náungar á borð við Liam Gallagher og Alex Turner úr Arctic Monkeys litið upp til hans og ítrekað nefnt hann sem áhrifavald.

Sólóferill Browns hefur verið farsæll, sérstaklega í heimalandinu. Fjórtán smáskífur hafa komist á topp 40 þar í landi auk þess sem selst hefur upp á sex tónleikaferðir hans um Bretland. Á meðal þekktustu laga hans eru Be There og Dolphins Were Monkeys. Kappinn kom hingað til lands í júní árið 2000 og spilaði á Reykjavík Music Festival í Laugardalshöllinni ásamt sveitum á borð við Bloodhound Gang og Kent. Margir aðdáendur The Stone Roses sáu þá goðið sitt loksins á sviði.

Orðrómur um endurkomu The Stone Roses hefur lengi verið uppi en miðað við yfirlýsingar Browns verður hún aldrei að veruleika enda vill hann fyrst og fremst líta fram á veginn. „Fyrir utan Sex Pistols fannst mér fyrsta Stone Roses-platan góð en ég hlusta bara ekki lengur á gítarhljómsveitir. Ég hef verið kallaður indí-átrúnaðargoð en samt hlusta ég ekki á það sem kallað hefur verið indí-tónlist,“ segir hann.

Í Frank Sinatra-laginu My Way syngur sá bláeygði um að hann sjái ekki eftir neinu í lífinu. Töffarinn Brown er á sama máli. „Ég sé alls ekki eftir neinu. Allt sem ég hef gert hefur verið á mínum forsendum. Enginn hefur nokkru sinni getað ráðskast með mig.“

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.