Innlent

Hollenski fjármálaráðherrann: Icesave-klúður ábyrgð FME

Guðjón Helgason skrifar

Fjármálaráðherra Hollands var harðorður í garð íslenska fjármálaeftirlitsins á hollenska þinginu í dag þar sem Icesave deilan við Íslendinga var rædd. Hann sagði ábyrgðina einvörðungu liggja þar. Þingmenn annarra flokka gagnryndu hollenska seðlabankann fyrir aðgerðarleysi í málinu.

Samkvæmt Icesavesamkomulagi Íslendinga og Hollendinga borga Íslendingar hollenskum innistæðueigenum hjá Landsbankanum í Hollandi tuttugu þúsund evrur að hámarki og síðan hollenska ríkið mismuninn upp að hundrað þúsund evrum.

Hópur fyrrverandi innistæðueigenda sem áttu meira en hundrað þúsund evrur á reikningum sínum óskuðu eftir utandagskrárumræðu um málið á hollenska þinginu og fór hún fram í dag.

Hópurinn, sem telur um tvö hundruð manns, þrýstir mjög á hollensk yfirvöld að gera meira í málinu.

Á þinginu í dag var meðal annars rætt hvort seðlabanki Hollands, sem annast eftirlit með fjármálastofnunum í Hollandi, og íslenska Fjármálaeftirlitið hefðu átt að grípa fyrr inn í upppgang Icesave í Hollandi þegar ljóst hafi verið hvert stefndi með Landsbankann.

Þingmenn gagnrýndu Hollenska seðlabankann harðlega fyrir seinagang. Viðbörgð hans hafi ekki verið nægilega markviss og fálmkennd. Lagt var til að fram færi rannsókn á aðgerðum seðlabankans.

Wouter Bos, fjármálaráðherra, kom seðlabanka Hollands til varnar og sagði ábyrgðina á Icesave málinu liggja alfarið hjá íslenska fjármálaeftirlitinu. Hollenski seðlabankinn hafi fengið misvísandi upplýsingar í málinu og í sumum tilvikum ekki fengið svör við fyrirspurnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×