Lífið

Vill leysa Magna af hólmi

fimur kokkur Björgvin Jóhann er álíka fimur í eldhúsinu og þegar hann var upp á sitt besta með Á móti sól.
fimur kokkur Björgvin Jóhann er álíka fimur í eldhúsinu og þegar hann var upp á sitt besta með Á móti sól.

„Þeir eiga alveg nokkur góð ár eftir, það er mín skoðun. Þeir eru búnir að sýna og sanna að þeir eru eitt sterkasta bandið í dag," segir Björgvin Jóhann Hreiðarsson, kokkur og fyrrverandi söngvari Á móti sól.

Tíu ár eru liðin síðan Björgvin yfirgaf sveitina og Magni Ásgeirsson tók við. Af því tilefni ætlar Á móti sól að spila í Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum í kvöld.

Þrátt fyrir að hljómsveitin, sem er upprunalega frá Selfossi og Hveragerði, hafi selt plötur sínar í bílförmum eftir að Björgvin hætti segist hann ekki sjá eftir neinu.

„Ég hætti bara af mínum ástæðum og sé ekki eftir því, þó að þetta hafi verið rosalega skemmtilegur tími. Ég var að reyna að mennta mig í öðru fagi en það gekk ekki og fjórum árum seinna ákvað ég að drífa mig í þetta og prófa," segir hann og á þar við kokkanámið sem hann lauk við á síðasta ári. Starfar hann núna sem kokkur á Gullfoss Kaffi og er sáttur við sitt. „Ég flutti heim aftur og bý nú á Reykholti í Biskupstungum. Ég er fjölskyldumaður og bara mjög sáttur."

Björgvin söng í fjögur ár með Á móti sól og tók upp með þeim plöturnar Gumpurinn og 1999. Vinsælasta lag hans er vafalítið Djöfull er ég flottur.

Hann útilokar ekki að stíga aftur á svið með sínum gömlu félögum og leysa Magna af hólmi, að minnsta kosti í smá stund. „Mér fyndist ekki úr vegi að strákarnir rigguðu upp öllu gamla genginu, því það er töluvert af fólki búið að rúlla í gegnum þetta band, og héldu tónleika í sinni heimabyggð annaðhvort á þessum tímamótum eða á næsta ári á fimmtán ára afmælinu. Það væri mjög gaman." - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.