Erlent

Ánægður með matinn á lögreglustöðinni

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Lögregluþjónar í Taipei, höfuðborg Taiwan.
Lögregluþjónar í Taipei, höfuðborg Taiwan.

Atvinnulaus maður í Taiwan, sem nýverið var sleppt úr haldi lögreglu, braut af sér strax aftur vegna þess hve ánægður hann var með matinn á lögreglustöðinni.

Matur er mannsins megin segir máltækið og það virðist svo sannarlega hafa verið ofarlega í huga Tsou Hao-lan í Taipei, höfuðborg Taiwan. Hann var handtekinn á sunnudaginn fyrir að stela skópari enda atvinnulaus og á þar af leiðandi ekki fyrir nauðþurftum. Hao-lan sat inni fyrir þetta brot þar til í gær og var vistaður í fangaklefa í lögreglustöð í Taipei. Þar fékk hann mikla matarást á lögreglunni og var svo ánægður með málsverðinn sem honum var færður í klefann að hann beið ekki boðanna heldur dreif sig beint í næstu verslun þegar hann losnaði úr fangelsinu og gerðist á ný sekur um þjófnað.

Hann sat þó ekki jafnlengi inni í það skiptið en hefur nú náð óformlegum samningum við lögregluna um að hann megi líta við á stöðinni á matmálstímum og þiggja bita. Kreppan hefur skollið af miklum krafti á Taiwan-búum og er töluvert um að fólk reyni að verða sér úti um mat á kostnað hins opinbera einfaldlega með því að koma sér í fangelsi með einhverjum ráðum.

Um daginn stal annar maður, sem verið hafði án atvinnu í fjóra mánuði, vespu og ók henni rakleiðis á næstu lögreglustöð þar sem hann játaði brot sitt og fór fram á að vera vinsamlegast handtekinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×