Lífið

Netþrjótur í gervi Unnar Birnu

Unnur Birna Hún segir fúlt að einhver noti nafn hennar á Facebook.
Unnur Birna Hún segir fúlt að einhver noti nafn hennar á Facebook.

„Það er frekar fúlt að það sé hægt að nota nafn manns og mynd svona auðveldlega – og í rauninni ferðast um Netið undir mínu nafni. Það er mjög óþægilegt,“ segir alheimsfegurðardrottningin og lögfræðingurinn Unnur Birna Vilhjálmsdóttir.

Netþrjótur opnaði Facebook-síðu undir hennar nafni í sumar og hefur síðan verið mjög duglegur að sanka að sér vinum. Svo virðist sem fólk átti sig ekki á að um netþrjót sé að ræða, jafnvel þótt eftirfarandi „status“-uppfærsla hafi birst í byrjun september: „Við munum vera hamingjusamur, ekki misrétti:D“

Unnur hefur reynt að tilkynna þrjótinn til forsvarsmanna Facebook með því að smella á „report“-takkann, en án árangurs. „Enda bjóst ég ekki við viðbrögðum. Maður er hálfvarnarlaus,“ segir hún.

„Ég hef ekki látið þetta hafa áhrif á mig hingað til, en þegar maður heyrir að viðkomandi sé að bæta hálfri þjóðinni við sem vinum, þá er þetta orðið hálfkjánalegt,“ segir Unnur. „Ég verð bara að treysta á það að þeir sem þekkja mig raunverulega séu vinir mínir á réttri síðu.“

Netþrjóturinn virðist ekki gera sér grein fyrir því að sú sem hann þykist vera er í mastersnámi í lögfræði. Heimatökin eru því hæg fyrir Unni vilji hún fara lengra með málið. „Þetta gæti klárlega orðið mál,“ segir hún, en bætir við að það gæti reynst erfitt að bregðast við málum á jafn stóru vefsvæði og Facebook er.

„Mér datt helst í hug að henda nafninu mínu út af Facebook og opna síðu undir dulnefni,“ segir Unnur í léttum dúr. - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.