Innlent

Sóley: Aldrei hafa færri störf verið í boði fyrir ungmenni

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna.
Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna.
Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, segir að þrátt fyrir hástemmdar yfirlýsingar meirihlutans í Reykjavík hafi frá árinu 2001 aldrei verið færri störf í boði fyrir ungmenni á aldrinum 17 til 25 ára hjá Reykjavíkurborg.

Sóley segir að samkvæmt tölum frá Vinnumiðlun ungs fólks frá 9. júní hafi 1241 ungmenni verið ráðið til starfa í sumar, en fjöldi sumarstarfa hafi verið á bilinu 1300 til 2000 á undanförnum árum.

„Að sama skapi er upphæð til atvinnumála lægra nú en áður, aðeins 96 milljónir króna í stað 110 árið 2008. Fjöldi umsókna er þó meiri nú en nokkru sinni, alls hafa 3425 einstaklingar nú sótt um starf hjá vinnumiðlun ungs fólks en aðeins 2177 sóttu um störf þar í fyrra," segir Sóley í tilkynningu.

Hún segir að við aðstæður sem þessar sé mikilvægt að opinberir aðilar bregðist við og fyrirbyggi langvarandi afleiðingar atvinnuleysis. „Það er því mikið áhyggjuefni að meirihluti borgarstjórnar skuli ekki viðurkenna þann vanda sem við blasir, enda segir sagan okkur að atvinnustig ungs fólks skiptir sköpum þegar afleiðingar efnahagsþrenginga eru skoðaðar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×