Erlent

Ástralir skelfingu lostnir yfir hákarlaárásum

Ástralskir baðstrandagestir eru í uppnámi í kjölfar þess að þrjár hákarlaárásir hafa átt sér stað við strendur landsins á síðasta sólarhring. Hákarlaárásir eru mjög sjaldgæfar og því vekja þrjár á nær sama tíma mikla skelfingu. Í morgun lenti kafari í því að hákarl réðst á hann suður af Sidney. Maðurinn slapp lifandi en var með um 40 sár eftir hárbeittar hákarlstennurnar.

Kafarinn Steven Foggerty segist hafa fundið sting í annari löppinni og strax áttað sig á hverju sætti. „Ég leit niður til þess að athuga hvort lappirnar væru enn á sínum stað og sem betur fer voru þær það." Foggerty segist að því búnu hafa lamið og barið frá sér af öllum mætti til þess að verjast frekari árásum. Það bar árangur og forðaði hákarlinn sér.

Árásin á Foggerty var sú þriðja í röðinni á einum sólarhring. Hannah Mighall, þrettán ára gömul stúlka var á brimbretti undan ströndum Tasmaníu þegar tæplega fimm metra langur hákarl réðst á hana. Frændi hennar sem varð vitni að árásinni lýsti sagði að honum hefði liðið eins og hann væri að horfa á hryllingsmynd á borð við Jaws. Hákarlinn dró stúlkuna undir yfirborð sjávar að minnsta kosti tvisvar sinnum en sleppti henni að lokum. Hún var flutt á sjúkrahús með hraði og mun lifa árásina af þrátt fyrir mikinn blóðmissi.

Þriðja árásin var svo gerð á annan brimbrettaáhugamann sem var að fylgjast með hópi höfrunga að leik þegar hvítháfur beit hann í lærið þannig að stór hluti þess lenti í hákarlskjaftinum. Maðurinn komst við illan leik til strandar þaðan sem hann var fluttur með hraði á sjúkrahús.

Þá eru aðeins tvær vikur síðan stór hvítháfur náði brimbrettamanni í Ástralíu. Dýrið beit hann og dró undir yfirborðið og hefur hvorki fundist tangur né tetur af manninum síðan.

Þessar tíðu árásir hafa orsakað mikla hræðslu á meðal baðstrandagesta þrátt fyrir að hákarlafræðingar reyni að fullvissa fólk um að um hreinar tilviljanir sé að ræða og að hákörlum hafi ekki farið fjölgandi við strendur Ástralíu. Hins vegar sé mannfólkinu að fjölga og þarafleiðandi eru fleiri á ströndunum en áður. Fjöldi dauðsfalla af hákarlabiti í Ástralíu hefur verið sá sami í fimmtíu ár. Um 1,2 dauðsföll eru af þeim sökum á hverju ári. Sérfræðingar benda á að mannakjöt sé ekki efst á óskalista hákarlsins, annars væri enginn öruggur í sjónum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×