Innlent

Eigandi Yaris bifreiðar: „Þekki þjófinn hvar sem er“

Sólmundur Hólm Sólmundarson skrifar

Eigandi Toyota Yaris bifreiðar sem stolið var meðan hann borgaði fyrir bensín á Shell bensínstöðinni í Árbæ fyrr í dag, segist sjaldan hafa orðið jafn hissa á ævi sinni og þegar hann sá bíl sinn reykspóla í burtu. Hann segist mundu þekkja þjófinn hvar sem er.

„Ég var búinn að borga fyrir bensínið og var að rölta í rólegheitum út, þá bara reykspólar bíllinn minn í burtu, beint fyrir framan nefið á mér," segir maðurinn sem varð fyrir því óláni að nýlegum Yaris sem hann keypti fyrir ári síðan var stolið um miðjan daginn í dag. Bíllinn er árgerð 2006, grár að lit og með númerið NE-129.

Maðurinn fór rakleitt inn á bensínstöðina og tilkynnti um þjófnaðinn. Hringt var á lögreglu og fékk eigandinn að skoða myndir úr öryggismyndavélum bensínstöðvarinnar. „Þegar við fórum að skoða þetta sáum við manninn labba í kringum bílinn eins og hann væri að líta til eftir lyklum. Þegar hann sér svo að lyklarnir eru í mínum bíl þá hendir hann hvolp sem hann var með inn í bíl og sjálfum sér á eftir. Svo reykspólar hann í burtu," segir maðurinn sem lýsir þjófnum sem ungum dökkhærðum manni með dökkan síðan hökkutopp og skegg kringum munninn. Hann var klæddur í ljósan jakka með svörtum doppum.

Eigandinn var þó ekki að sjá manninn í fyrsta skipti þegar hann sá hann í öryggismyndavélunum. „Þegar ég var að keyra upp á bensínstöðina, ók ég upp götu sem ég held að heiti Grjótháls. Þá sá ég mann labbandi með hvolp sem var laus og dró tauminn á eftir sér. Ég hugsaði að þetta væri nú vel upp alinn hundur svo ég leit vel framan í manninn sem var með hann. Þetta var sami maður. Svona útitekinn náungi, frekar dökkur. Hundurinn var blendingur, sennilega af Íslendingi og einhverju öðru. Fjörlegur hvolpur með rófuna upp í loftið. Ég myndi þekkja manninn hvar sem er."

Í bílnum var veski eigandans með öllum hans kortum nema Skeljungskortinu sem hann notaði til að greiða fyrir bensínið. Einnig var GPS tæki í bílnum. „Ég lét auðvitað loka öllum kortum strax en það verður leiðindavesen að þurfa að sækja um þau öll. Nýtt ökuskírteini og þannig leiðindi. Og GPS tækið, djöfull sé ég eftir því ef ég fæ það ekki aftur," segir hann.

Yaris bifreiðin er þó ekki eini bíllinn á heimili mannsins. „Nei við eigum annan við hjónin og hún er heimavinnandi. Þannig að ég slepp við að taka strætó."

Þeir sem verða varir við bílinn eða geta einhverjar upplýsingar gefið um málið eru beðnir að hafa samband við lögreglu í síma 444-1000.








Tengdar fréttir

Bíl stolið meðan eigandinn borgaði fyrir bensín

Fólksbíl var stolið við bensínstöð Shell við Hraunbæ um tvöleytið. Á meðan að eigandi bílsins var inni að greiða fyrir bensín fór maður inn í bílinn og ók honum á brott.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×