Innlent

Sovéski fáninn að húni hjá Lilju Mósesdóttur

Sólmundur Hólm Sólmundarson skrifar
Lilja Mósesdóttir var hrekkt af syni sínum.
Lilja Mósesdóttir var hrekkt af syni sínum.

„Þetta var sonur minn að hrekkja móður sína," segir alþingiskonan Lilja Mósesdóttir en í dag hefur Sovéska fánanum verið flaggað á heimi hennar í Breiðholti. Nágrannar Lilju höfðu samband við fréttastofu, ekki par hrifnir af uppátækinu.

„Ég sendi hann út til að taka niður fánann," segir Lilja hlæjandi. Hún segir ástæðu þess að sonurinn brá á það ráð að hrekkja móður sína með þessum hætti vera þá að eftir að hún fór út í pólitík og settist á þing fyrir vinstri græna hefur hún verið kölluð „Komminn".

Sonur Lilju, Jón Reginbaldur, er að verða átján ára og ansi stríðinn að sögn móðurinnar. „Hann á það til að reyna á þolmörkin. Hann vissi að þetta myndi líklegast fara í fjölmiðla. Í raun held ég að hann hafi líka verið að kanna hvort þetta myndi vekja athygli," segir Lilja.

Lilja þvertekur fyrir að þarna sé um einhverskonar pólitíska yfirlýsingu að ræða. Aðspurð hvort hún hafi orðið reið þegar hún komst að þessu svaraði hún: „Nei alls ekki. Mér fannst þetta bara mjög fyndið og átti alveg von á einhverju svona frá honum."

Fáninn er kominn niður núna að sögn Lilju. „Þetta er kannski uppreisn unglingsins að mótmæla því að tilheyra opinberri fjölskyldu," segir Lilja kampakát á þjóðhátíðardaginn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×