Innlent

Loðnu leitað næstu daga

Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson og þrjú loðnuskip eru lögð upp í leitarleiðangur umhverfis Ísland í von um að bjarga milljarða loðnuvertíð.

Skipverjarnir á Faxa voru í Reykjavíkurhöfn upp úr hádegi að undirbúa brottför en ásamt Faxa taka nótaveiðiskipin Lundey frá Vopnafirði og Börkur úr Neskaupstað þátt í leitinni í samvinnu við Hafrannsóknastofnun. Rannsóknarskipið Árni Friðriksson fer fyrir leiðangrinum en það lagði úr höfn síðdegis.

Niðurstöður leiðangurs Árna Friðrikssonar fyrir jól gáfu ekki tilefni til bjartsýni en þá mældist veiðistofn loðnu langt undir því lágmarki sem þarft til að unnt sé að leyfa veiðar. Skipstjórinn á Faxa var þó ekki svartsýnn við brottför í dag.

Bæði útgerðir og sjómennirnir um borð fara í loðnuleit án þess að fá nokkrar beinar tekjur fyrir leiðangurinn. Mikið er í húfi því loðnuvertíð hefur að meðaltalið undanfarin tíu ár skilað tólf milljörðum króna á ári í þjóðarbúið.Menn vonast til að fá einhver svör á næstu fimm dögum. Árni Friðriksson er samt ekkert á heimleið á næstunni því leiðangur hans stendur fram í febrúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×