Innlent

Vonbrigði að Ögmundur og Lilja fylgi ekki meirihlutanum

Jóhanna Sigurðardóttir varð fyrir vonbrigðum með afstöðu Lilju og Ögmundar í Icesave málinu. Mynd/ GVA.
Jóhanna Sigurðardóttir varð fyrir vonbrigðum með afstöðu Lilju og Ögmundar í Icesave málinu. Mynd/ GVA.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir það vera vonbrigði að Ögmundur Jónasson og Lilja Mósesdóttir hafi greitt atkvæði gegn Icesave frumvarpi ríkisstjórnarinnar á Alþingi í gær. Stjórnarþingmenn þurfi stundum að taka óvinsælar ákvarðanir.

Icesave frumvarp ríkisstjórnarinnar var samþykkt með 32 atkvæðum gegn 29 við lok annarrar umræðu á Alþingi í gær. Tveir stjórnarliðar greiddu atkvæði gegn frumvarpinu, Ögmundur Jónasson og Lilja Mósesdóttir.

Enn liggur ekki fyrir hvort Ásmundur Einar Daðason muni styðja frumvarpið þegar það kemur til atkvæðagreiðslu í lok þriðju umræðu. Ríkisstjórnin gæti því þurft að reiða sig á stuðning Þráins Bertelssonar.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að Alþingi þurfi að afgreiða málið svo Íslendingar geti endurheimt trúverðugleika í alþjóðlegum samskiptum.

„Auðvitað veldur það vonbrigðum að allir stjórnarliðar hafi ekki fylgt með í þessu máli. Þetta er stórt mál og grundvallaratriði í efnhagsstefnu þessarar ríkisstjórnar. Það er bara einu sinni svo að þegar menn eru í ríkisstjórn og tilheyra stjórnarflokkum þá verða menn oft að taka óvinsælar ákvarðanir. Það er líka einu sinni svo að í þessu erfiða máli , vonda máli, að ég býst við að fleiri inni hefðu viljað greiða atkvæði á móti því en það er bara ekki valkostur í þessari stöðu sem við erum í," segir Jóhanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×