Lífið

Ganga 450 kílómetra til Reykjavíkur til að kaupa ís

Ferðin nýhafin Hjálmar og Jón ofan Hattardals, milli Álftafjarðar og Hestfjarðar.
Ferðin nýhafin Hjálmar og Jón ofan Hattardals, milli Álftafjarðar og Hestfjarðar.

„Þetta var nú bara hugmynd sem við vorum að gantast með í sumar, að ganga frá Ísafirði til Reykjavíkur til að kaupa ís. Svo létum við slag standa!“ Þetta segir Jón Björnsson, sem ásamt Hjálmari Forna Steingrímssyni lagði af stað fótgangandi til Reykjavíkur á fimmtudaginn í síðustu viku.

Unglingurinn Hjálmar dvaldi með Jóni á Hornströndum í sumar, en þar er Jón landvörður. Hann sást á dögunum í þætti Gísla Einarssonar, Út og suður. Þar kom fram að hann skokkar um allt á stígvélum.

„Við erum nú bara í venjulegum strigaskóm í ferðinni, enda erum við léttir og það er lítið álag á skónum. Á Vestfjörðum gengum við beint af augum yfir fjöll og firnindi. Þarna eru fá landbúnaðarsvæði og auðvelt að komast um, engar girðingar og slíkt. Eftir að við komum á þjóðveginn göngum við bara eftir honum. Það er styst og auðveldast.“

Jón segir þá félaga gista í tjaldi, en stundum í svefnpokagistingu. Þetta er um 450 kílómetra leið og mun taka tíu daga þegar upp er staðið, 45 km á dag. „Við komum í bæinn á morgun, en við erum ekki búnir að ákveða hvar við fáum okkur ís – og ekki einu sinni hvernig ís. Það koma margir staðir til greina.“ - drg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.