Innlent

Einstakt nám á heimsvísu

22 nemenda hópur útskrifaðist úr diplómanáminu Námstíminn var ómetanlegur tími og lærdómsríkur fyrir alla sem að því komu, nemendur sem og starfsfólk, segir Guðrún V. Stefánsdóttir, lektor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.mynd/Kristinn ingvarsson
22 nemenda hópur útskrifaðist úr diplómanáminu Námstíminn var ómetanlegur tími og lærdómsríkur fyrir alla sem að því komu, nemendur sem og starfsfólk, segir Guðrún V. Stefánsdóttir, lektor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands.mynd/Kristinn ingvarsson

„Þetta hefur verið alveg ómetanlegur tími og mjög lærdómsríkur fyrir alla sem að þessu námi komu, nemendur jafnt sem starfsfólk. Ég er viss um að námið hefur gegnt sínu hlutverki í því að breyta viðhorfum hjá ansi mörgum," segir Guðrún V. Stefánsdóttir, lektor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands (HÍ). Síðastliðinn laugardag útskrifuðust 22 nemendur úr starfstengdu diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun úr HÍ. Guðrún hafði umsjón með skipulagi og þróun námsins ásamt Vilborgu Jóhannsdóttur, samlektor sínum.

Að sögn Guðrúnar er námið, sem hófst haustið 2007 sem tilraunanámsleið á þroskaþjálfabraut, í raun einstakt á heimsvísu. „Ég veit um háskóla í Bandaríkjunum og á Írlandi sem hafa boðið upp á nám fyrir þroskahamlaða, en þar hefur verið um að ræða mun meiri skiptingu milli þroskahamlaðra og annarra nema. Í diplómanáminu okkar hefur verið lögð mikil áhersla á að nemendurnir stundi námskeið með öðrum nemendum. Í því augnamiði var þróað stuðningskerfi, svokallað mentorakerfi, þar sem samnemendur veittu diplóma­nemendunum stuðning ef svo bar undir. Eitt af því ánægjulegasta var að sjá hversu vel þetta samstarf gekk."

Mikil áhersla var lögð á fjölbreytni í náminu. Meðal námskeiða sem í því fólust má nefna fötlunarfræði, siðfræði í starfi með fötluðum, upplýsingatækni og miðlun og framsögn og leikræna tjáningu. Guðrún segir námið hafa vakið mikla athygli. „Eftir­spurnin er mikil og við höfum fengið góð viðbrögð, meðal annars frá hinum Norður­löndunum. Vandamálið hefur verið að þroskahömluðum hefur staðið lítið sem ekkert til boða eftir nám í framhaldsskóla. Spurningin hefur alltaf verið „getur þetta fólk stundað háskólanám?" Þessir nemendur hafa svo sannarlega svarað þeirri spurningu játandi," segir Guðrún.

Við útskriftina á laugardag var tilkynnt að nýr hópur yrði tekinn inn í námið í haust. „Það eru frábærar fréttir. Það þýðir að þetta er ekki lengur tilraunaverkefni og ég ber þá von í brjósti að fleiri deildir innan skólans fari að huga að slíku námi," segir Guðrún V.

Stefánsdóttir.kjartan@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×