Lífið

Ég hef verið bænheyrður

Emilíana Torrini er að gera það gott á meginlandinu. Þarna glittir líka í Pétur Hallgrímsson gítarleikara.
mynd/gaukur úlfarsson
Emilíana Torrini er að gera það gott á meginlandinu. Þarna glittir líka í Pétur Hallgrímsson gítarleikara. mynd/gaukur úlfarsson

Gaukur Úlfarsson fylgir Emilíönu Torrini eftir á Evróputúr hennar. Hann er að gera mynd um tónleikaferðina og er afar ánægður að hafa fengið að komast aðeins burt frá Íslandi.

„Ég er að gera mynd um túrinn, en þetta verður engin venjuleg dagbókarmynd, heldur annað konsept,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn Gaukur Úlfarsson, sem nú þeysir um Evrópu í fylgdarliði Emilíönu Torrini. „Ég er að gera þessa mynd fyrir Emilíönu og útgáfufyrirtækið hennar, Rough Trade. Ég stefndi að því að myndin yrði tilbúin í janúar en á þessari fyrstu viku er ég búinn að filma svo mikið að mér líst orðið ekkert á það plan lengur.“

Emilíana hefur verið dugleg að spila síðustu misserin, en eiginlegur Evróputúr hennar hófst á fimmtudaginn fyrir viku. Gaukur hefur tekið upp efni í Hollandi, Þýskalandi og í Frakklandi. Í gærkvöldi voru tónleikar í Brussel. Svona heldur túrinn áfram um alla Evrópu til 21. október. Þá hættir Gaukur að elta bandið en Emilíana heldur áfram að spila út árið.

„Emilíana er orðin nokkuð vinsæl í Evrópu. Lagið „Jungle Drum“ var í efsta sæti vikum saman, ekki bara í Þýskalandi heldur líka í Austurríki, Sviss og í fleiri löndum sem við ferðumst til,“ segir Gaukur. „Hún er að spila á 1.000-1.500 manna stöðum og það er alltaf uppselt. Mjög glæsilegt, allt saman. Mér finnst Emilíana ákveðin í að halda sér niðri á jörðinni miðað við umfangið á þessu.“

Mikið Íslendingastóð er í kringum Emilíönu. Lay Low hitar upp og Pétur Hallgrímsson spilar með henni. Pétur spilar líka með Emilíönu, sem og Sigtryggur Baldursson, og Lay Low spilar á bassa í sumum lögunum með Emilíönu.

„Það er mjög skemmtilegt að vera á svona túrum, sérstaklega þegar maður er með frábæru fólki. Rútan ruggar manni í svefn og svo vaknar maður í nýrri borg á hverjum morgni,“ segir Gaukur, sem er vanur túralífinu. Hann spilaði á bassa með Quarashi, sem fór í allt upp í hálfs árs túra í sínu meiki. En saknar hann ekki Íslands og umræðunnar um Icesave? „Nei, við skulum orða það þannig að ég hafi verið bænheyrður að komast á þennan túr,“ segir Gaukur og flissar í steikjandi hitanum í Frakklandi.

drgunni@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.