Innlent

Alls 470 ökumenn stöðvaðir í umferðarátaki

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Alls voru 470 ökumenn stöðvaðir á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu í gær og fyrradag í sérstöku umferðareftirliti sem lögreglan heldur nú úti í umdæminu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni tóku ökumenn þessum afskiptum mjög vel og því gekk eftirlitið vel fyrir sig. Enginn var undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og verða það að teljast mjög góð tíðindi. Tveir voru próflausir og fáeinir höfðu ökuskírteini ekki meðferðis. Lögreglumenn á vettvangi veittu því sérstaka athygli að ökumenn voru yfirleitt í mjög góðu skapi og greinilega komnir í jólaskap.

Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að markmiðið með þessu átaki gegn ölvunarakstri, sem er unnið í samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra, er að vekja athygli á þeirri hættu sem stafar af ölvunarakstri og hvetja fólk til almennrar varkárni í umferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×