Erlent

Arabaríki geta ekki gagnrýnt

Tveir Úígúrar létu lífið í gær og sá þriðji særðist af völdum byssuskota frá lögreglunni, sem sagðist hafa verið að verjast árás. Kínversk vitni segja að mennirnir þrír hafi hlaupið í áttina að hópi lögreglumanna vopnaðir hnífum í Urumqi, höfuðborg Xinjiang-héraðs.

Tugir þúsunda lögreglumanna og hermanna eru í borginni til að koma þar á ró og friði með ströngu eftirliti eftir að hundruð manna féllu í átökum í síðustu viku.

Úígúrar, sem eru múslimar, hafa lengi verið ósáttir við framgöngu Han-Kínverja í Xinjiang-héraði og þær hömlur sem settar eru á trúariðkun þeirra.

Tyrknesk stjórnvöld hafa líkt atburðum síðustu daga við þjóðarmorð og Íransstjórn hefur sömuleiðis gagnrýnt Kínverja, en gagnrýni frá múslimaríkjum araba hefur helst komið frá öfgahópum múslima.

Labib Kamhawi, stjórnmálaskýrandi í Jórdaníu, segir ástæðu þess vera augljósa: „Þau geta ekki gagnrýnt árásir á kínverska múslima vegna þess að þau eru sjálf engin lýðræðisríki. Þau sitja við sama borð og kínverska stjórnin."

Lífið í Urumqi er hægt og rólega að komast í skorður á ný. Fleiri götur hafa verið opnaðar og búðareigendur eru farnir að opna verslanir sínar á ný.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×