Innlent

Ögmundur: Össur á réttri braut

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. Mynd/Arnþór Birkisson
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að leggja Varnarmálastofnun niður endurspeglar rétta forgangsröðun, að mati Ögmundar Jónassonar þingmanns VG og fyrrverandi ráðherra. Utanríkisráðherra sé á réttri braut. Hann telur að það hafi verið mikil mistök að setja saman Varnarmálastofnun.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisríkisráðherra, sem felur í sér að Varnarmálastofnun verður lögð niður og að verkefni stofnunarinnar verði færð til fyrirhugaðs innanríkisráðuneytis. Stofnunni tók til starfa 1. júní 2008

„Þetta endurspeglar að mínu mati rétta forgagnsröðun hjá ríkisstjórninni hvað varðar niðurskurð og samdrátt," segir Ögmundur.

Þingmaðurinn segir að ákvörðun ríkisstjórnarinnar sé í samræmi við stefnu og ályktanir Vinstri grænna. Á síðasta landsfundi flokksins hafi verið samþykkt tillaga þess efnis.

„Ég tel að þetta hafi verið mikil mistök. Við í Vinstrihreyfingunni grænu framboði gagnrýndum þetta harðlega og töldum að þarna væru menn að ráðast í mikinn kostnað á röngum forsendum. Þannig að ég tel að utanríkisráðherra sé þarna á réttri braut," segir Ögmundur.


Tengdar fréttir

Varnarmálastofnun lögð niður

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisríkisráðherra, sem felur í sér að Varnarmálastofnun verður lögð niður og að verkefni stofnunarinnar verði færð til fyrirhugaðs innanríkisráðuneytis. Þetta mun ekki hafa áhrif á varnar- og öryggisskuldbindingar Íslands. Stofnunin tók til starfa 1. júní 2008 undir stjórn Ellisifjar Tinnu Víðisdóttur, forstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×