Innlent

Fyrrum fjármálastjóri Garðabæjar dæmdur í 6 mánaða fangelsi

Alfreð Atlason fyrrum fjármálastjóri Garðabæjar var í morgun dæmdur í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness. Alfreð var dæmdur fyrir fjárdrátt í opinberu starfi, með því að hafa misnotað stöðu sína sem fjármálastjóri bæjarsjóðs Garðabæjar og dregið sér fé upp á rúmar 9 milljónir króna. Alfreð játaði skýlaust brot sín og hefur þegar endurgreitt upphæðina.

Alfreð millifærði féð inn á reikninga hjá þremur félögum í sinni eigu en um var að ræða fimm millifærslur frá desember árið 2007 til júlí 2008.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að Alfreð hafi ekki áður sætt refsingu en líta beri á það honum til refsiþynnginar að hann hafi verið opinber starfsmaður.

Á hinn bóginn sé liltið til þess að hann hafi ekki gert neina tilraun til að leyna fjárdrættinum og hann hafi játað brot sitt hreinskilningslega. Einnig hætti hann störfum þegar málið kom upp og endurgreiddi féð að öllu leyti skömmu eftir starfslok.

Því þótti refsing hans hæfileg 6 mánaða fangelsi en eftir atvikum þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×