Innlent

Hollendingar geta tafið viðræður en ekki hindrað þær

„Formlega séð geta Hollendingar komið í veg fyrir að aðildarviðræðurnar hefjist og þeim ljúki," segir Aðalsteinn Leifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík. Hann bendir á að það þurfi samhljóða samþykki ráðherraráðsins til að hefja viðræður. „Það verður gefið væntanlega á fundi leiðtoga aðildarríkjana í desember. Síðan þarf samþykki ráðherraráðsins til að ljúka aðildarsamningnum og undirrita hann, segir Aðalsteinn. Formlega séð geti hoellensk stjórnvöld því komið í veg fyrir aðildarviðræðurnar.

„En ef að Ísland uppfyllir öll skilyrði evrópusáttmálans og svokölluð Kaupmannarhafnaskilyrði þá tel ég að þeim væri ekki stætt á því að koma í veg fyrir aðildarviðræðurnar á grundvelli Icesavedeilna. Sérstaklega ef fyrir liggur að önnur ríki og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins leggja til að samningaviðræður hefjist," segir Aðalsteinn. Hann segist hins vegar telja að Hollendingar gætu mögulega tafið samningaferlið.

Þá segir Aðalsteinn mjög óeðlilegt að tengja pólitísk deiluefni eins og Icesave við aðild að Evrópusambandinu. Aðalsteinn bendir hins vegar á að þau ummæli hollenska utanríkisráðherrans í samtali hans við Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sem vísað hefur verið til í fjölmiðlum sé engin opinber stefna Hollendinga. „Allavega ekki á þessu stigi málsins," segir Aðalsteinn.

Loks bendir Aðalsteinn á að ríki hafi gerst aðilar að ESB þrátt fyrir að erfið mál hafi verið uppi hjá þeim. Bendir Aðalsteinn á Spán sem dæmi, en Spánverjar hafi verið í erfiðri stöðu varðandi Gíbraltar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×